Þverpólitískur hópur þingmanna í neðri deild breska þingsins samþykkti í gær tillögu sem gengur út á að þingið komi í veg fyrir mögulegar tilraunir ríkisstjórnarinnar til þess að slíta þingi og þannig geta gengið út úr Evrópusambandinu án samnings í trássi við vilja meirihluta þingmanna. Hilary Benn úr Verka­mannaflokknum og Alistair Burt úr Íhaldsflokknum stóðu að tillögunni sem var samþykkt með 315 atkvæðum gegn 274.

Tillagan var í raun lögð fram og samþykkt vegna þess að kannanir benda allar til þess að Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra, hafi betur gegn Jeremy Hunt, núverandi utanríkisráðherra, í baráttunni um leiðtogastól Íhaldsflokksins og þar með forsætisráðuneytið. Johnson hefur ítrekað heitið því að Bretar haldi sig við að ganga út úr Evrópusambandinu þann 31. október og fresti útgöngudagsetningu ekki eins og áður hefur verið gert, jafnvel þótt það þýði samningslausa útgöngu.

Í raun er um að ræða breytingartillögu við frumvarp um frestun kosninga á þing Norður-Írlands. Við það frumvarp hafa einnig verið hengdar tillögur um að heimila samkynja hjónabönd og þungunarrof á Norður-Írlandi.

Óhlýðnir ráðherrar

Margot James, sem þurfti vegna reglna þingsins að segja af sér sem menningarmálaráðherra til þess að greiða atkvæði með tillögunni, sagði að nú þyrfti að bíða og sjá hvað gerist. „Jeremy Hunt myndi ganga eðlilega fram, hann hefur ekki áhuga á því að slíta þingi. Það er öfgakennd aðgerð. Þannig að ég býst ekki við því að fleiri segi af sér fyrr en við vitum hvernig leiðtogakjörið fer í næstu viku,“ sagði James.

Ráðherrann fyrrverandi var ekki sú eina sem óhlýðnaðist ríkisstjórninni í gær. Philip Hamm­ond­ fjármálaráðherra, David Gauke dómsmálaráðherra, Greg Clark viðskiptaráðherra og Rory Stewart, ráðherra þróunarmála, greiddu ekki atkvæði og höfðu ekki heimild til hjásetu.

„Forsætisráðherrann varð augljóslega fyrir vonbrigðum með að hópur ráðherra hafi ekki greitt atkvæði í dag. Arftaki hennar mun án nokkurs vafa líta til þessa við myndun næstu ríkisstjórnar,“ sagði í tilkynningu.

Fokdýrt samningsleysi

Sérstök stofnun breska ríkisins um ábyrgð í ríkisfjármálum (OBR) varaði í gær við því að Bretar þyrftu að taka lán fyrir um sextíu milljarða breskra punda til viðbótar ef gengið er út úr Evrópusambandinu án samnings. Til samanburðar myndi upphæðin nema um 29 milljónum ef hægt er að ná samningi í gegnum breska þingið.

Að mati OBR myndi aukin óvissa og minnkandi traust á bresku hagkerfi virka fráhrindandi á fjárfesta. Erfiðara viðskiptaumhverfi myndi svo hamla viðskiptum við Evrópusambandsríki. „Saman myndu þessir þættir ýta hagkerfinu í átt að kreppu. Verð myndu hækka og virði pundsins hríðlækka.“