Suðurkóreska strákasveitin BTS er söluhæsti tónlistarflytjandi ársins 2020 samkvæmt IFPI, Alþjóðlegu félagi hljómplötuframleiðenda.

Þetta er í fyrsta skipti sem flytjandi utan Vesturlanda hreppir titilinn sem og í fyrsta skipti sem lög söluhæsta flytjanda eru mestmegnis á öðru tungumáli en ensku.

Tónlistarfólkið í næstu sætum á eftir BTS eru Taylor Swift í öðru sæti, Drake í þriðja, The Weeknd í fjórða og Billie Eilish í fimmta.

„BTS er alþjóðlegt fyrirbæri,“ sagði Frances Moore, framkvæmdastjóri IFPI. „Sveitin hefur átt annað framúrskarandi ár, gefið út þrjár plötur og stöðugt fundið skapandi og grípandi leiðir í samskiptum sínum við umheiminn. Þeir sýna sannarlega þann kraft sem tónlistin hefur til að færa fólki um allan heim gleði og hamingju.“