Þrjú stéttarfélög stefna nú Samtökum atvinnulífsins og Isavia til Félagsdóms vegna ágreinings um skipulag vaktavinnu eftir styttingu vinnuvikunnar. Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, segir túlkun SA og Isavia á bókun um styttingu vinnuvikunnar fara gegn því sem samið var um.

Stéttarfélögin sem um ræðir eru Sameyki – stéttarfélag í almannaþjónustu, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Félag flugmálastarfsmanna ríkisins. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB) stefnir SA fyrir hönd félaganna þriggja.

Nýja fyrirkomulagið um styttingu vinnuvikunnar í 36 tíma úr 40 tímum tók gildi 1. janúar síðastliðinn fyrir dagvinnufólk en 1. maí fyrir vaktavinnufólk. Samkvæmt Þórarni er framkvæmd þess mismunandi eftir því hvort um er að ræða dagvinnu- eða vaktavinnufólk þar sem dagvinnufólk er með skilgreind neysluhlé í kjarasamningi en ekki vaktavinnufólk.

Þórarinn segir SA og Isavia ganga út frá því að vinnutími vaktavinnufólks eigi að styttast í 36 tíma en ofan á þann tíma skuli bæta neysluhléum í 35 mínútur á dag. Það skipulag myndi skila aðeins rúmri klukkutíma styttingu, mun styttri en kjarasamningur kveður á um.

„Isavia vill meina að í þessu vaktaskipulagi séu neysluhléin fyrir utan og séu neysluhléin tekin þá lengi það hverja vakt,“ segir Þórarinn. Hann segir Sameyki og hin stéttarfélögin vera ósammála því, enda hafi neysluhléin aldrei fram að þessu verið skipulögð inn í vaktavinnutímann þar sem kjarasamningurinn kveður á um annað.

Þórarinn segir vaktavinnutímann alltaf vera skipulagðan sem ein heild með ótímasettum neysluhléum, þau séu tekin þegar tækifæri gefst. „Það hefur alltaf verið skilgreiningin inni í vaktavinnukerfunum. Við breyttum þeim ekki neitt í kjarasamningunum og fyrra fyrirkomulag neysluhléa innan vaktavinnunnar stendur óbreytt og óhaggað að okkar mati,“ segir hann.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir málið snúast um túlkun á vinnutímastyttingu í kjarasamningum Isavia við stéttarfélögin. „Ágreiningur var í nefnd um útfærslu á vinnutímastyttingu og er málið komið til úrskurðar hjá Félagsdómi,“ segir hann.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir forsvarsfólk samtakanna aldrei tjá sig um mál áður en búið sé að dæma í þeim.

Í kynningarmyndbandi um styttingu vinnuvikunnar hjá BSRB segir að vinnutími alls vaktavinnufólks í fullu starfi skuli stytt úr 40 tímum í 36 tíma og allt niður í 32 tíma fyrir fólk sem vinnu kvöld-, nætur- og helgarvinnu.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir í sama myndbandi að ástæðan fyrir því að gengið sé lengra í styttingu vinnuvikunnar fyrir vaktavinnufólk sé vegna þess að rannsóknir sýni að vaktavinna geti verið heilsuspillandi, sérstaklega þegar hún er óregluleg.