„Við berum ábyrgð á því sem samfélag hvernig fólki vegnar eftir samfélagsáföll,“ segir Edda Björk Þórðardóttir nýdoktor, en hún vinnur að rannsóknum á áföllum og afleiðingum þeirra við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og hefur meðal annars rannsakað áhrif snjóflóðanna sem féllu á Súðavík og Flateyri árið 1995 á líðan þolenda.

Meðal þess sem Edda Björk leggur áherslu á eru það sem hún kallar annars stigs áföll en rannsóknir sýna að afleidd áföll á borð við fjárhagsáhyggjur, atvinnu- og eignamissi í kjölfar hamfara geti ýtt undir streitu í kjölfar áfalla og auka líkur á vanlíðan á borð við kvíða og áfallastreituröskunar. „Ef við hugsum núna um samfélagið á Flateyri og eignatjón atvinnutækja eins og bátana sem eyðilögðust, þá er hlutverk okkar sem samfélags mjög mikilvægt. Auk þess að veita sálrænan stuðning þurfum að veita fjárhagslegan stuðning inn í samfélagið vegna þessa. Annars stigs áföll geta haft áhrif á líðan fólks, en það er margt sem við sem samfélag getum gert til að draga úr streitu þeirra sem urðu fyrir þessu áfalli.“ segir Edda Björk.

Öll þjóðin með hugann fyrir vestan

Um áhrif fyrri áfalla segir Edda mikilvægt að þeir sem upplifi vanlíðan núna, hvort heldur er vegna flóðanna 1995 eða núna, er að leiti sér aðstoðar. Áfallastreitueinkenni vegna áfalls sem átti sér stað fyrir mörgum árum geti verið viðvarandi til langstíma. Þá sé algengt hjá þeim sem upplifi sambærilegt áfall í annað sinn að það veki upp erfiðar endurminningar sem ýti undir vanlíðan.

„Ég held að þjóðin öll sé með hugan við snjóflóðin sé féllu í nótt og þá hræðilegu atburði sem urðu 1995. Snjóflóðin árið 1995 voru mjög alvarlegir atburðir sem tóku líf margra og ollu gríðarlegri eyðileggingu og ég held að öll þjóðin sé með hugann núna hjá þeim sem upplifðu snjóflóðin á sínum tíma og hjá þeim sem upplifðu snjóflóðin í nótt.“

Edda segir mikilvægast núna að fólkið fái góðan félagslegan stuðning, bæði varðandi ýmis praktísk mál og tilfinningalegan stuðning. „Það eitt að við látum fólkið vita að við séum að hugsa til þess og erum til staðar fyrir þau skipt máli,“ segir Edda.

Sextán prósent enn með einkenni áfallastreituröskunar

Doktorsverkefni Eddu Bjarkar laut að áfallastreitu þolenda snjóflóðanna á Súðavík og Flateyri. Niðurstöður hennar sýndu að 16 prósent þeirra sem bjuggu á Flateyri og Súðavík þegar snjóflóðin féllu árið 1995 glímdu enn við einkenni áfallastreitu 16 árum síðar.

Edda segir áfallahjálp til þolenda hamfara hafi verið bætt gríðarlega síðan árið 1995, en almannavarnir veittu í fyrsta skipti áfallahjálp eftir snjóflóðið í Súðavík. Í fyrra skoðaði Edda viðhorf þolenda til sálfélagslegs stuðnings eftir hamfarir á Íslandi og niðurstöðurnar sýna að ánægja með áfallahjálp sem veitu hefur verið hér á landi hefur aukist í samræmi við úrbætur og þróun áfallahjálpar. „Við skoðuðum viðhorf þolenda til áfallahjálpar eftir snjóflóðin á Vestfjörðum árið 1995, jarðskjálftana á Suðurlandi 2008 og einnig gosið í Eyjafjallajökli 2010 og niðurstöður okkar benda til þess að ánægja með áfallahjálp hafi aukist hér á landi samhliða framþróun við aðferðir áfallahjálpar.“

Mikilvægt að vinna með heimamönnum

Edda leggur áherslu á mikilvægi þess að áfallateymið sem virkjað er um leið og samhæfingarstöðin í Skógarhlíð, vinni með sérfræðingum á vettvangi. „Þar er fólkið sem þekkir íbúana sjálfa á staðnum og aðstæður hvers og eins; hverjir geta staðið höllum fæti og þarf að huga sérstaklega að,“ segir Edda. „Mikilvægast sé alltaf að nálgast þolendur af mikilli virðingu og nærgætni.“