„Að­gerðir ríkis­stjórnarinnar sem þegar eru ljósar, ná lítið sem ekkert til ör­yrkja. Sinnu­leysi síðasta ára­tugar um kjör ör­yrkja má ekki halda á­fram í skjóli nú­verandi kreppu,“ segir í á­lyktun frá stjórn Ör­yrkja­banda­lags Ís­lands sem sam­þykkt var á stjórnar­fundi í gær.

Skaðinn enn óbættur

Stjórn Ör­yrkja­banda­lagsins hvetur ríkis­stjórnina til að „falla ekki í gamlar skot­grafir“ í bar­áttunni sem er fram undan við efna­hags­legar af­leiðingar Covid-19 far­aldursins.

„Engan má skilja eftir í fá­tækt, hvað þá sárafátækt. Í kjöl­far fjár­mála­kreppunnar árið 2008 var gengið svo langt í niður­skurði í vel­ferðar­kerfinu, að skaðinn sem varð er enn ó­bættur,“ segir í á­lyktuninni og því bætt við að þær for­dæma­lausu að­stæður sem nú eru uppi kalli á nýja hugsun og nálgun við við­fangs­efnin þar sem vel­ferðar fólks verður að vera í fyrir­rúmi.

„Með hækkun ör­orku­líf­eyris til sam­ræmis við lág­marks­laun, vinnum við okkur hraðar út úr þeim þrengingum sem nú blasa við.“

80 þúsund króna munur

Í á­lyktuninni kemur fram að brýnt sé að grípa strax til að­gerða sem forða fólki frá sárri fá­tækt. Það sé eðli­leg krafa á ríkis­stjórn sem í sam­starfs­sátt­mála sínum ætlaði að styrkja sér­stak­lega stöðu þeirra sem höllum fæti standa.

„Nú munar um 80 þúsund krónum á ör­orku­líf­eyri og lág­marks­launum og út­lit er fyrir að kaup­máttur líf­eyris minnki enn frekar, eftir að hafa nánast staðið í stað á kjör­tíma­bili nú­verandi ríkis­stjórnar. Þetta má ekki gerast í því verð­bólgu­skoti sem nú ríður yfir.“

Stjórnin bendir á að í rúmt ár hafi sam­tal við ráð­herra for­sætis-, fjár­mála- og fé­lags­mála engu skilað og í ár hafi sömu ráð­herrar ekki orðið við beiðni Ör­yrkja­banda­lagsins um fundi.

„Ríkis­stjórn sem vinnur að út­rýmingu fá­tæktar verður að horfast í augu við vanda­málið og hefja við­ræður við okkur nú þegar um lausn vandans. Lausn sem ekki getur falist í öðru en líf­eyri sem tryggir mann­sæmandi líf. Tími efnda er núna.“