Eyþór Eðvarðsson, félagi í Lífsvirðingu, segir að Ísland sé eftirbátur í málum dánaraðstoðar. Hann segir brýnt að fólk fái að velja sína hinstu stund að uppfylltum ströngum skilyrðum.

Í könnun sem félagið framkvæmdi kom fram að 80 prósent Íslendinga telji að sjúklingar eigi rétt til að biðja um dánaraðstoð. Heilbrigðisyfirvöld hafi ekki tekið boltann í málefninu, sem Eyþóri þykir miður.

„Læknar eru smeykir við þetta skilst mér en þar sem þetta er leyft geta læknar valið að taka ekki þátt í verkefninu og þá tekur einhver annar þetta,“ sagði Eyþór í viðtali í Fréttavaktinni á Hringbraut í gærkvöldi.

Tengdafaðir Eyþórs fékk dánaraðstoð í Hollandi fljótlega eftir aldamótin eftir að hann greindist með heilakrabbamein. Hann valdi að deyja heima í eigin rúmi.

„Hann var orðinn mjög veikur,“ útskýrir Eyþór og segir tengdaföður sinn hafa verið kvalinn, sársaukinn hafi verið óbærilegur og engar meðferðir í boði.

„Hann fékk að ákveða stað og stund. Svo kallaði hann í okkur og lét okkur vita að það væri búið að ákveða þetta. Hann vildi fá okkur sama dag og vildi ekki bíða með þetta. Hann var búinn að bíða lengi,“ lýsir Eyþór.

Eftir fallega stund með nánustu ættingjum fékk hann kveðja heiminn á eigin forsendum. Eyþór segir mikilvægt að taka umræðu um dauðann og dánaraðstoð.

„Ef allt er búið og ekkert eftir og þú upplifir ekkert nema kvöl og pínu þá verður þessi möguleiki að vera opinn.“