Rótin, fé­lag um mál­efni kvenna með á­fengis- og fíkni­vanda, telur nauð­syn­legt að breytingar séu gerðar á verk­lags­reglum lög­reglu og Neyðar­línunnar vegna dauða Heklu Lindar Jóns­dóttur sem lést eftir átök við lög­reglu í apríl í fyrra. Kristín I. Páls­dóttir, tals­kona Rótarinnar, segir málið vera hvatningu fyrir stjórn­völd til að bæta þjónustu við þá sem eru með á­fengis- og fíkni­vanda.

Greint var frá því í nýjasta þætti Kompás að að­gerðir lög­reglu hafi átt um­tals­verðan þátt í dauða hennar en Hekla reyndist vera í geð­rofi vegna neyslu og hafði vinur hennar í­trekað óskað eftir sjúkra­bíl. Sjúkra­bíllinn kom aldrei en þess í stað mættu lög­reglu­menn á vett­vang sem kom Heklu í upp­nám og kom til á­taka milli þeirra.

„Rótin undrast það mikla afl sem fíl­efldir lög­reglu­þjónar hafa beitt við hand­töku Heklu Lindar sem var lítil og nett og varla verið ógn við nokkurn mann nema sjálfa sig í því á­standi sem hún var í við hand­tökuna,“ segir Kristín í til­kynningu fyrir hönd Rótarinnar, en lög­reglu­mennirnir settu hnén í­trekað í bakið á Heklu á meðan hand­tökunni stóð.


Mat sér­fræðinga var að lög­reglu­mennirnir höfðu beitt viður­kenndum hand­töku­að­ferðum og segir Kristín það undar­legt að að­ferðir sem áttu hlut í dauða Heklu væru viður­kenndar að­ferðir. „Ef svo er þá er full á­stæða til að endur­meta hvað er „viður­kennd að­ferð“ við hand­töku fólks í geð­rofi.“

Fólk í partýum hafi full mannréttindi

Þá segir Kristín að í­trekað hafi það komið upp að sjúkra­flutninga­menn séu ekki sendir á vett­vang heldur einungis lög­regla og vísar þar til at­viks sumarið 2013 þegar kona var hand­tekin með ofur­afli á Laugar­vegi. Annað mál sem hún vísar til er þegar kona varð nærri úti eftir að hafa dottið í hálku og rotast en fékk enga að­stoð þrátt fyrir að hafa hringt í Neyðar­línuna.

„Það hlýtur að að vera hægt að senda báða aðila á vett­vang í slíkum til­vikum enda hefur fólk í partýum full mann­réttindi og rétt til heil­brigðis­þjónustu og er brýnt að endur­skoða verk­lag sem skiptir fólki þannig upp í for­gangs­hópa,“ segir Kristín og bætir við að sann­girni og meðal­hófs sé ekki gætt þegar fólk er undir á­hrifum.


„Allt sem hér er rakið hnígur að því að tími sé til kominn að verk­lags­reglum Lög­reglunnar og Neyðar­línunnar verði breytt til að þær þjóni öllum þegnum án mis­mununar hvort sem þeir eru í partýi eður ei,“ segir að lokum.