Guðfinna Harpa Árnadóttir, formaður Landssambands sauðfjárbænda, segir að markviss ræktun með verndandi geni gegn riðu, svokölluðu ARR arfgerð, gæti mildað áhrifin á þá bændur sem þurfa að takast á við riðu í sauðfé sínu. Hún segir nauðsynlegt að bændur á hááhættusvæðum geti byggt upp hjarðir með verndandi geninu.

Rannsóknarhópur á Íslandi fann verndandi arfgerð gegn riðu í sex kindum á Þernunesi í Reyðarfirði. Allar kindur með slíka arfgerð geta hvorki veikst né smitað annað fé af riðu. Ráðherra hefur fagnað þessum stórtíðindum en næsta skref verður að fara af stað í ræktunarstarf til að koma ARR arfgerðinni sem hraðast inn í íslenska stofninn án þess að draga um of úr erfðafjölbreytileika hans.

„Í Evrópu er þetta gen nýtt þannig að ef upp kemur riða þá eru gripir með þetta gen ekki felldir þar sem talið er að þeir geti hvorki smitast né smitað aðra gripi,“ útskýrir Guðfinna í samtali við Fréttablaðið.

„Því getur markviss ræktun gert það að verkum að ekki þurfi að skera niður í heildarniðurskurði þar sem veikin kemur upp ef þar er verndandi stofn og mildað þannig áhrifin á þá bændur sem þurfa að takast á við sjúkdóminn.“

Rannsóknarhópurinn sem fann genið sem mun breyta öllu í baráttunni við að útrýma riðu. Eyþór Einarsson, Gesine Lühken, Vilhjálmur Svansson, Stefanía Þorgeirsdóttir og Karólína Elísabetardóttir.
Fréttablaðið/Samsett mynd

Rannsóknarhópurinn tilkynnti um uppgötvunina á fjarfundi í dag. Þar sagði Gesine Lühken, prófessor við Universität Gießen, að miðað við rannsóknir í Þýskalandi væri hægt að koma ARR arfgerðinni almennilega inn í íslenska stofninn á fimm árum.

Guðfinna segir að ræktunarstarfið muni auðvitað taka sinn tíma og þurfi að vinna mjög markvisst, einmitt til að glata ekki erfðabreytileika varðandi aðra eiginleika sem eru mikilvægir.

„Hvort sem það eru eiginleikar varðandi afurðagetu, gæði afurðanna eða sjúkdómaþol eða hvað það er. Til þess þarf auðvitað að horfa til markvissrar ræktunaráætlunar og mögulega erfðatækni. Það er verkefnið sem við stöndum frammi fyrir núna,“ segir Guðfinna.

Fundurinn veitir sauðfjárbændum von um að arfgerðin finnist víðar á landinu en það myndi auðvelda verkefnið fram undan.

„Sömuleiðis myndi það auðvelda verkefnið ef hægt væri að staðfesta að aðrir áhugaverðir erfðabreytileikar gætu líka skilað okkur árangri gagnvart riðunni.“

Vísar hún þar í fágæta arfgerð sem ber nafnið T137 sem ítalskir vísindamenn hafa sýnt fram á að virki verndandi þar á landi. Slík arfgerð hefur fundist á Íslandi en er hins vegar ekki viðurkennd af Evrópusambandinu enn sem komið er.

Kindur á Sveinsstöðum og Straumi eru með T137 arfgerðina sem gæti líka lofað góðu í baráttunni við útrýma riðu.

Gott að byggja upp vernd á hááhættusvæðum

Riða hefur greinst ítrekað á Norðurlandi vestra og er það meðal hááhættusvæða á Íslandi varðandi að smit komi upp.

„Á þeim svæðum er auðvitað nauðsynlegt að bændur fái tækifæri til að byggja upp hjarðir sem eru verndandi en á öðrum svæðum gætum við ef til vill haldið áfram með lítið næma og hlutlausa arfgerð í bland við hina nýfundnu verndandi arfgerð til að varðveita erfðabreytileika fyrir öðrum eiginleikum. Þetta er allt eitthvað sem þarf að skoða,“ segir Guðfinna.

Fundurinn kallar á fleiri rannsóknir og Guðfinna telur mikilvægt að halda áfram að skima fyrir eiginleikanum og því meira sem það er hægt því betra.

„Annað sem er áríðandi að gera er að rannsaka betur hvort aðrir erfðabreytileikar sem finnast í íslensku fé geta hjálpað okkur í þessari baráttu.“