Lögreglan á Vesturlandi, sem ekki hefur lengur afnot af skotsal Vesturlands, vill heimild Borgarbyggðar til að hefja æfingar á Ölduhrygg. Of kostnaðarsamt sé að fara í skotsali í Kópavogi og Keflavík.

„Samkvæmt viðbúnaðarskipulagi lögreglu er gerð krafa um að lögregla geti sinnt vopnuðu viðbragði við tilteknar aðstæður. Til þess að það sé unnt þurfa lögreglumenn að fá tiltekið mikla þjálfun og standast árlegt próf. Þetta er ófrávíkjanlegt samkvæmt kröfum ríkislögreglustjóra,“ segir í erindi lögreglustjóra Vesturlands.

Þá kemur fram að æfingar og skotpróf lögreglumanna hafi legið niðri vegna kórónaveirufaraldursins. Ölduhryggur hefur verið notaður til skotprófa meðal almennings. Þar er til skoðunar að Skotfélag Vesturlands fái aðstöðu og segir lögreglustjórinn félagið ekki gera athugasemdir við að lögreglan fái þar einnig aðstöðu. „Í ljósi stöðunnar er afar brýnt að koma skotæfingum og -prófum í gang við allra fyrsta tækifæri,“ undirstrikar lögreglustjórinn.