Fyrir liggja tvær óafgreiddar umsóknir hjá Matvælastofnun (MAST) um eitranir á sjókvíaeldissvæðum á Vestfjörðum með Deltamethrini vegna lúsasmits á eldislaxi. Bæði svæðin eru í Tálknafirði, annað við Hvannadal og hitt við Laugardal. Fyrr í haust heimilaði MAST lúsameðhöndla eldisfisks með SliceVet lúsalyfi við Steinanes í Arnarfirði og meðhöndlun með sama efni í sjókvíum við Haukadalsbót og Gemlufall í Dýrafirði.

Forsvarsmenn umhverfissamtaka og Landsambands Veiðifélaga hafa lýst yfir áhyggjum sínum yfir notkun lúsalyfs og skordýrtaeiturs í sjókvíaeldi og telja skorta áhættumat á áhrifum þess á vistkerfi við sjókvíarnar sem og villtan lax í kringum eldissvæðin. Notkun Deltamethrin er mjög umdeild en það er eitt mest notaða skordýraeitur í heiminum.

Þannig hafi rannsóknir vísindamanna sýnt fram á skaðleg áhrif lúsalyfsins á til að mynda krabbadýrin humar og rækju. Á þetta var meðal annars bent í skýrslu Hafrannsóknastofnunar þar sem fram kemur að aflúsunarefni hafi áhrif á hamskipti laxalúsa og að rannsóknir hafi sýnt fram á skaðleg áhrif efnanna á önnur krabbadýr.

Sjávarútvegsráðuneytið birti 14. maí síðarstliðinn drög að breyttri reglugerð um velferð lagardýra, varnir gegn sjúkdómum og heilbrigðiseftirlit með eldisstöðvum. Drögin voru gagnrýnd af bæði eldisfyrirtækjum og náttúruverndarsamtökum. Í reglugerðinni var lagt til að leyfa allt að 6 til 15 sinnum meira lúsasmit í sjókvíum hérlendis en er heimilt í Noregi sem er stærsti framleiðandi eldislax í heiminum.

Ráðherra þarf að setja skýra umgjörð um rekstur sjókvíeldanna

Jón Kaldal, talsmaður umhverfissjóðsins Icelandic Wildlife Fund, telur brýnt að ráðherra setji skýrar reglur um rekstur og umgjörð fiskeldisstöðva með reglugerð. Þá þurfi að meta heildaráhrif lýsalyfja á umhverfið og vistkerfið.

„Staðreyndin er sú að MAST hefur á hverju ári frá 2017 gefið út leyfi fyrir notkun skordýraeiturs eða lyfja til að meðhöndla lúsasmitaðan eldislax í sjókvíum á Vestfjörðum. Þetta er grafalvarleg staða. Ráðherra fékk meðal annars það hlutverk þegar lögum um fiskeldi var breytt í júní 2019 að uppfæra reglugerð um þetta mál.

Hans eina framlag hingað til var leggja fram fyrir tæpum sjö mánuðum drög sem voru einróma gagnrýnd. Þar kom frá sú óskiljanlega tillaga að leyfa allt að fimmtán sinnum meira lúsasmit á eldislaxi í sjókvíunum en er heimilt í Noregi, þrátt fyrir að það sé þekkt að lúsin hefur hörmuleg áhrif á eldislaxinn í sjókvíunum og lífríikið í kringum sjókvíarnar,“ segir Jón Kaldal, talsmaður umhverfissjóðsins Icelandic Wildlife Fund.

„Þegar lúsin stingur sér niður í kvíarnar fjölgar hún sér gríðarlega hratt og getur á skömmum tíma orðið óviðráðanleg. Lúsin étur ekki bara eldisdýrin lifandi heldur streymir úr sjókvíunum og strádrepur ungviði villta laxins og urriðann. Það liggur í augum uppi að netapokarnir í sjókvíunum halda ekki lús, frekar en menguninni, sem fer beint í sjóinn útum netmöskvana, og reyndar halda netin ekki heldur alltaf eldisslöxunum sem þau eiga að geyma,“ segir Jón enn fremur.

„Lúsarákvæðin í norsku reglugerðinni eru ekki þar að ástæðulausu. Skilyrðin þar er þó ekki meira íþyngjandi en svo fyrir eldisfyrirtækin að þau þurfa ekki að gera breytingar á starfsemi sinni fyrr en yfir 30 prósent af villtum laxaseiðum drepast á leið sinni fram hjá lúsasmituðum sjókvíum á leið sinni til uppeldisstöðva sinna í hafinu. Þessi mörk vill ráðherra samt hafa miklu hærri hér.

Þá vill ráðherra að eftirlitið með þessari umhverfishættu vill ráðherra sé á könnu fyrirtækjanna sjálfra og að upplýsingagjöf þeirra til Matvælastofnunar og almennings sé í algjöru skötulíki,“ segir hann um eftirlitið með fiskeldisstöðum hér á landi.

Jón Kaldal, talsmaður umhverfissjóðsins Icelandic Wildlife Fund.

Ekki tilefni til þess að meta umhverfisáhrif lúsalyfja að mati MAST

Gísli Jónsson, sérgreinadýralæknir fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun, segir notkun lúsalyfsins Deltametrin hafa verið í liltum mæli hér á landi undanfarin ár. Þá hafi lyfið undirgengist og staðist strangt framleiðslu- og leyfisveitingaferli hjá Evrópsku lyfjastofnuninni.

„Þess ber fyrst að geta að meðhöndlun með baðlyfinu Deltametrin gegn laxalús hefur verið afar takmörkuð hér við land á liðnum árum. Frá því að fyrsta heimilaða meðhöndlunin fór fram sumarið 2017 hafa einungis ein til tvær staðbundnar baðanir farið fram á Vestfjörðum. Það sem af er ári 2020 hefur ein slík böðun farið fram, í Arnarfirði,“ segir Gísli í samtali við Fréttablaðið.

„Þau lyf sem notuð eru til meðhöndlunar gegn laxa- og fiskilús hafa farið í gegnum framleiðslu- og leyfisveitingaferli hjá Evrópsku lyfjastofnuninni. Í því felst til að mynda að lyfjaframleiðandinn þarf að sýna fram á öryggi lyfsins fyrir umhverfi og vistkerfi. Flest lyf sem notuð eru gegn laxa- og fiskilús hafa neikvæða virkni á lífeðlisfræðilega þætti sem eru sameiginlegir lúsum og öðrum krabbadýrum. Mismunandi er hversu sterk sú virkni er en ýmis öryggisatriði eru höfð til hliðsjónar við notkun lyfjanna til að draga úr þeim áhrifum,“ segir Gísli enn fremur.

„Sem dæmi má nefna að styrkur baðlyfja sem gefin eru í sérstök meðhöndlunarböð er mestur þegar lyfin komast í snertingu við lúsasmitaðan fisk. Virkni lyfjanna minnkar svo hratt með tímanum, á mínútum og klukkustundum, þegar þau brotna niður auk þess sem þynning efnanna þegar baðmeðhöndlun er lokið og lausnin fer í sjóinn er svo mikil að skaðleg áhrif á lífverur í vistkerfinu eru takmörkuð. Samspil lyfja og vistkerfa hefur í gegnum tíðina verið mikið rannsakað, ekki síst í Noregi.

Ábyrg notkun lyfja út frá umhverfis- og heilbrigðissjónarmiðum er mikilvægt verkefni yfirvalda sem heimila notkun lyfja og þeirra dýralækna sem ávísa lyfjum. Miðað við þá takmörkuðu notkun sem átt hefur sér stað hér við land á liðnum árum hefur ekki þótt forgangsmál að framkvæma rannsóknir á áhrifum Deltametrin á vistkerfi sjávar við Vestfirði,“ segir hann um umhverfisáhrif lúsalyfsins.