„Ég man ekki í fljótu bragði eftir neinum sem er eldri en Brynjólfur, eflaust hafa álíka gamlir menn verið á listum, oft í heiðurssætum, en að þetta gamall maður hafi verið kosinn, ég man ekki eftir neinu slíku dæmi,“ segir Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor.

Framgangur eldri borgara í sveitarstjórnarkosningunum náði hæstu hæðum um síðustu helgi. Brynjólfur Ingvarsson, sem hlaut glæsilegt kjör og fékk 12,2 prósenta fylgi á Akureyri sem bæjarfulltrúi fyrir Flokk fólksins, er á níræðisaldri.

Af fleirum í kringum eftirlaunaaldur er það að segja að Guðmundur Árni Stefánsson í Hafnarfirði, þar sem Samfylkingin fékk fjóra menn, er fæddur 1955. Helga Jónsdóttir, fædd 1954, fékk mikið fylgi fyrir Vini Kópavogs og tvo menn kjörna. Páll Magnússon, fyrrverandi sjónvarpsstjóri og þingmaður, fæddur 1954, treysti stoðir meirihlutans í Eyjum.

„Ég held að það sé mjög heppilegt að í hópi kjörinna fulltrúa sé bæði ungt fólk og fólk sem komið er á virðulegan aldur. Mér sýnist að í síðarnefnda hópnum séu fleiri en nokkru sinni sem fara inn í bæjarstjórnir eða eru mjög nálægt því,“ segir Ólafur.

Brynjólfur Ingvarsson, aldurshöfðingi á Akureyri, bjó sig undir reiðtúr þegar Fréttablaðið náði tali af honum í gær. Hann er á 81. aldursári, segist við góða heilsu, enda reyni hann að ganga daglega, synda eða ríða út.

Fréttablaðið/Auðunn

Brynjólfur segist þakklátur fyrir kjörið, enda sé mikilvægt að eldri borgarar hafi rödd meðal kjörinna fulltrúa.

„Það er búið að ræða það í áratugi að aldraðir búi við áhyggjulaust ævikvöld en í seinni tíð verður margt eldra fólk sífellt áhyggjufyllra,“ segir geðlæknirinn Brynjólfur.

Brynjólfur segir húsnæðismál aldraðra í lamasessi. Sá málaflokkur hafi einkum orðið til þess að hann fór fram. Úrræði milli þess að eldri borgarar búi í eigin einbýlishúsi og fari á stofnun vanti alveg.

„Það þarf millistig,“ segir Brynjólfur. „Þetta er aðalverkefnið sem ég sé fram undan hjá mínum flokki,“ bætir Brynjólfur við og þakkar kjósendum traustið.