Sigríður Á. Andersen og Brynjar Níelsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, fara ekki á þing á næsta kjörtímabili.

Niðurstöður úr prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í borginni voru birtar í gærkvöldi. Þar sigraði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og varð Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í öðru sæti. Konur unnu mikinn sigur og tóku efstu þrjú sætin en hefði flokkurinn notast á við fléttulista, líkt og aðrir flokkar, hefði Brynjar Níelsson rokið upp um tvö sæti.

Diljá Mist Einarsdóttir aðstoðarkona Guðlaugs Þórs í utanríkisráðuneytinu vann þriðja sætið af miklu öryggi, sama sæti og hún sóttist eftir en miklar sviptingar voru um fjórða, fimmta og sjötta sætið, en baráttan um þau sæti var á milli Hildar Sverrisdóttur, Brynjars Níelssonar og Birgis Ármannssonar. Hildur hreppti að lokum í fjórða sætið, Brynjar það fimmta og Birgir lenti í sjötta sæti.

Brynjar segir úrslitin hafa verið talsverð vonbrigði og skilaboðin skýr. „Ég trúi því að Sjálftæðisflokknum muni vegna vel í komandi kosningum. Ég kveð því stjórnmálin sáttur,“ sagði hann í yfirlýsingu á Twitter.

Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, er sömuleiðis á leiðinni út en hún er ekki á blaði.

Kjartan Magnússon hélt sjöunda sætinu frá fyrstu tölum en Sigríður og Friðjón R. Friðjónsson eigandi KOM skiptust á að verma áttunda sætið fram eftir gærkvöldið. Friðjón hafði betur að lokum og Sigríður er ekki á blaði og nær sennilega ekki á þing.

Hún segist þakklát fyrir góðan stuðning og þakkar fyrir atkvæðin þó þau hafi ekki dugað til að ná þeim árangri sem hún stefndi að.

„Ég mun láta kjörnefnd flokksins, sem vinnur úr niðurstöðunni, vita að ég geri enga kröfu um sæti á framboðslista flokksins,“ segir hún í færslu hér fyrir neðan.

Nú þegar Brynjar er hættur færist Birgir Ármansson upp í fimmta sæti og lítur þá listinn út svona:

  1. sæti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra með 3508 atkvæði.
  2. sæti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra með 4912 atkvæði í 1. – 2. sæti.
  3. sæti Diljá Mist Einarsdóttir með 2875 atkvæði samanlagt í 1. – 3. sæti.
  4. sæti Hildur Sverrisdóttir með 2861 atkvæði samanlagt í 1. – 4. sæti.
  5. sæti Birgir Ármannsson með 4173 atkvæði samanlagt í 1. – 6. sæti.
  6. sæti Kjartan Magnússon með 3449 atkvæði samanlagt í 1. – 7. sæti.
  7. sæti Friðjón R. Friðjónsson með 3148 atkvæði samanlagt í 1. – 8. sæti