Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, viðurkennir að hann íhugi nú alvarlega að hætta við að hætta. Þetta kemur fram í hlaðvarpsþættinum Ein Pæling með Þórarni Hjartarsyni.
Eins og fram hefur komið lenti Brynjar í fimmta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík síðustu helgi. Það var lakari árangur en hann stefndi að og sagðist Brynjar ekki ætla að þiggja sætið í kjölfarið.
Í þættinum segir Brynjar að sér líði afar vel, viku eftir prófkjör. „Prófkjörið búið og allt þetta vesen í kringum það. Þingið að klárast og maður að komast í sumarfrí. Manni getur ekki liðið betur.“
Ertu alveg hundrað á því að vera hættur?
„Heyrðu, ég var það. Ég var það og var búinn að hugsa lengi fyrir prófkjörið, ég sá alveg fyrir hvernig þetta færi þegar öll þessi smölun yrði. Þá átti ég aldrei séns í raun og veru ofar en fimmta. Vegna þess að oddvitabaráttan tók með sér hliðarfólk,“ segir Brynjar.
Hann segir að hann hafi þá hugsað að flokkurinn væri að veðja á nýtt fólk. „Þannig mér fannst þetta bara liggja í augum uppi að ég væri langt frá markmiðunum, að kveðja bara,“ segir Brynjar.
Hann segir stuðningsmenn sína ekki hafa litið þannig á.
„Þannig það er búið að leggja mjög mikið að mér. Slík þyngsli að ég er orðinn boginn í baki.“
Brynjar segist þó ekki hafa tekið endanlega ákvörðun.
„Það eina sem ég lofa fólki er að ég ætla þá bara að íhuga það hvort það sé ástæða til að endurskoða og ég ætla bara að liggja á því í rólegheitum og sjá hvernig málin þróast. Sjá hvernig málin þróast í kosningum nú í kraganum og svo er norðvestur eftir. Þannig ég ætla bara að bíða rólegur.“
Hann segist hinsvegar vera undrandi á viðbrögðum við fyrri ákvörðun sinni um að hætta. „Það er að segja hvað það hefur verið þrýst á mig og úti um allt land. Um að halda áfram og það er eins og einhverjum þyki ég mikilvægur ennþá,“ segir Brynjar og bætir við:
„Þannig ég eiginlega neyðist til að allavega lofa því að íhuga hvort það sé ástæða til að endurskoða þetta.“
Þannig að þú ert að vísa til þess að þiggja fimmta sætið?
„Já. Eða ég meina, það er auðvitað getur verið gaman að taka baráttu,“ svarar Brynjar en fimmta sætið í prófkjörinu gæti verið baráttusæti í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. „Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn eigi alveg gífurleg tækifæri í kosningunum í haust. Við stöndum frammi fyrir því að endurreisa atvinnulífið og ég bara hef ekki trú á því að kjósendur Reykjavíkur trúi því að Reykjavíkurmódelið geti það.“
Þáttarstjórnandinn vék talinu aftur að prófkjörinu og lét þess þá getið að em 2600 hafi bæst við flokkinn á einum degi, það hafi því ekki aðeins sjálfstæðismenn tekið þátt.
„Nei nei, margir vinstrimenn komu að kjósa. Ég meina, þetta er vandinn við prófkjör. Þegar þú hefur reglurnar þannig að menn geta skráð sig bara um leið og þeir kjósa og ef menn fara í svona mikla smölun þá sýnir það kannski ekki endilega niðurstöðu sjálfstæðismanna sjálfra,“ segir Brynjar og vísar til sinna stuðningsmanna.
Því hafi þeir lagt mjög að honum að endurskoða ákvörðun sína. „Því þeir telja það geta skipt máli fyrir flokkinn. Og ég verð að verða við því að skoða það, hvort þetta sé rétt hjá mér að hætta við að hætta. En það er samt þannig að fólk gat komið og kosið mig sko. Auðvitað kusu mig margir, yfir 60 prósent, þannig það er svo sem ágætis kosning þegar horft er til þess.“