Brynjar Níelsson hefur tekið ákvörðun um það hvort hann muni þiggja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í borginni. Þetta staðfestir hann í samtali við Fréttablaðið en vill ekki gefa neitt upp og segir að von sé á yfirlýsingu í hádeginu.
„Ég ligg hér í baði,“ segir Brynjar léttur í bragði aðspurður að því hvernig Fréttablaðið sækir á hann nú í morgun. „Já. Ég er búinn að ákveða mig. Það verður tilkynnt í hádeginu,“ segir þingmaðurinn. Eins og fram hefur komið lenti Brynjar í fimmta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í byrjun júní og sagðist í kjölfarið vera hættur.
Nú segist Brynjar vera meyr vegna þess stuðnings sem hann hefur upplifað frá Jón og Gunnu út í bæ eins og hann lýsir því. „Hann hefur verið svolítið meiri en ég átti von á,“ segir Brynjar.
„Það er sérstakt vegna þess að hann kemur frá Jóa og Gunnu út í bæ sem er ekki hluti af þessu forréttindaliði og klíkuliði,“ segir hann. „Bara strákarnir í grunninum sem eru að moka fyrir í Alþingishúsinu og vinna í þessu hóteli, jafnvel óreglumennirnir á Austurvelli. Það skiptir mig meira máli en margir aðrir í stuðningi,“ segir Brynjar.
Hann segir marga segja Sjálfstæðisflokkinn vera flokk forréttindafólks. „Það er alltaf verið að mála Sjálfstæðismenn sem einhverja elítu, sem að einhverju leyti er kannski rétt, það er að segja að við náum ekki einhverri taug til Jóa og Gunnu,“ segir Brynjar.
Brynjar segir það hafa verið öðruvísi þegar hann var unglingur. „Og að vinna kannski í kosningum 1975. Maður sá yfir hópinn sem var að vinna fyrir Sjálfstæðisflokkinn, það var bara allt stritandi alþýðufólk sem samt trúði á þessa stefnu því það var aldrei svo öruggt að hafa vinnu í þá daga og ekki góðar atvinnuleysisbætur og þau litu svo á að þessi flokkur myndi vera líklegastur til að vinnan væri nóg. Þannig voru Sjálfstæðismenn bara alþýðufólkið.“
Ég heyri að þér þykir vænt um að upplifa stuðning þessa hóps?
„Já. Ég finn einhverja taug til stritandi fólks sem getur alveg haft góð laun ef það er duglegt en fær ekkert upp í hendurnar. Maður kann betur að meta þennan stuðning heldur en margan annan.“