Brynjar Níels­son hefur tekið á­kvörðun um það hvort hann muni þiggja sæti á lista Sjálf­stæðis­flokksins í borginni. Þetta stað­festir hann í sam­tali við Frétta­blaðið en vill ekki gefa neitt upp og segir að von sé á yfir­lýsingu í há­deginu.

„Ég ligg hér í baði,“ segir Brynjar léttur í bragði að­spurður að því hvernig Frétta­blaðið sækir á hann nú í morgun. „Já. Ég er búinn að á­kveða mig. Það verður til­kynnt í há­deginu,“ segir þing­maðurinn. Eins og fram hefur komið lenti Brynjar í fimmta sæti í próf­­kjöri Sjálf­­stæðis­­flokksins í Reykja­­vík í byrjun júní og sagðist í kjöl­farið vera hættur.

Nú segist Brynjar vera meyr vegna þess stuðnings sem hann hefur upp­lifað frá Jón og Gunnu út í bæ eins og hann lýsir því. „Hann hefur verið svo­lítið meiri en ég átti von á,“ segir Brynjar.

„Það er sér­stakt vegna þess að hann kemur frá Jóa og Gunnu út í bæ sem er ekki hluti af þessu for­réttinda­liði og klíku­liði,“ segir hann. „Bara strákarnir í grunninum sem eru að moka fyrir í Al­þingis­húsinu og vinna í þessu hóteli, jafn­vel ó­reglu­mennirnir á Austur­velli. Það skiptir mig meira máli en margir aðrir í stuðningi,“ segir Brynjar.

Hann segir marga segja Sjálf­stæðis­flokkinn vera flokk for­réttinda­fólks. „Það er alltaf verið að mála Sjálf­stæðis­menn sem ein­hverja elítu, sem að ein­hverju leyti er kannski rétt, það er að segja að við náum ekki ein­hverri taug til Jóa og Gunnu,“ segir Brynjar.

Brynjar segir það hafa verið öðru­vísi þegar hann var ung­lingur. „Og að vinna kannski í kosningum 1975. Maður sá yfir hópinn sem var að vinna fyrir Sjálf­stæðis­flokkinn, það var bara allt stritandi al­þýðu­fólk sem samt trúði á þessa stefnu því það var aldrei svo öruggt að hafa vinnu í þá daga og ekki góðar at­vinnu­leysis­bætur og þau litu svo á að þessi flokkur myndi vera lík­legastur til að vinnan væri nóg. Þannig voru Sjálf­stæðis­menn bara al­þýðu­fólkið.“

Ég heyri að þér þykir vænt um að upp­lifa stuðning þessa hóps?

„Já. Ég finn ein­hverja taug til stritandi fólks sem getur alveg haft góð laun ef það er dug­legt en fær ekkert upp í hendurnar. Maður kann betur að meta þennan stuðning heldur en margan annan.“