Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og lögfræðingur, skrifar í færslu á Facebook-síðu sinni að hann sé ekki efasemdamaður um þriðja orkupakkann svokallaða. Hann segir þó tal um að andstæðingar orkupakkans séu popúlistar og öfga-þjóðernisfólk hvimleitt.

Umræðan um þriðja orkupakkann hefur farið fram hjá fæstum, en hún hefur verið mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu. „Pakkinn“ er unninn upp úr löggjöf á sviði raforkumála hjá Evrópusambandinu, og hafa nokkrir áhyggjur af því að innleiðing pakkans feli í sér víðtækt framsal á fullveldi.

Brynjar segir í færslu sinni að hann hafi rætt við marga efasemdarmenn, og að þeir eigi það allir sameiginlegt að frjáls viðskipti milli þjóða sé mikilvægt hagsmunamál. „Uppnefni, eins og popúlistar, öfga-þjóðernishyggjumenn og einangrunarsinnar, gagnvart þeim sem eru á móti eða hafa efasemdir um innleiðingu 3ja orkupakkans, eru afskaplega hvimleið,“ skrifar Brynjar.

„Ég er ekki mikið fyrir að keyra út í skurð og vona að ég komist upp úr honum klakklaust, ef ég þarf þess ekki,“ segir Brynjar.

Hann bendir á að flestir, ef ekki allir, samflokksmenn hans á þingi hefðu lýst því yfir að þeir myndu ekki samþykkja löggjöfina ef í henni fælist yfirráð annarra yfir íslenskum orkuauðlindum, eða ef að ákvörðun um lagningu sæstrengs frá Íslandi til meginlands Evrópu væri í höndum annarra en Íslendinga. „Með þau skilaboð fóru ráðherrar okkar í mikla vinnu til að tryggja með skýrum hætti að öll yfirráð og ákvarðanir hvað þetta varðar væri í okkar höndum. Hefur sú vinna skilað því að ég er ekki efasemdamaður lengur og mun ekki setja EES samninginn, sem hefur skilað okkur meira en nokkuð annað í seinni tíð, í uppnám með því að hafna 3ja orkupakkanum,“ ritar Brynjar. „Ég er ekki mikið fyrir að keyra út í skurð og vona að ég komist upp úr honum klakklaust, ef ég þarf þess ekki,“ bætir hann við.

Hann virðist þó gera sér fulla grein fyrir því hversu heitt þetta umræðuefni er. „Eðlilega fylgja þessu máli miklar tilfinningar og ég tek því við gusum fram eftir kvöldi. Ég vona samt að við getum tekið málefnalega og yfirvegaða umræðu um málið meðan það er til meðferðar hjá þinginu,“ skrifar Brynjar að lokum.