Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gefur kost á sér til embættis ritara flokksins en kosning fer fram á Landsfundi þann 4. nóvember næstkomandi.

Frá þessu greinir Bryndís á Facebook-síðu sinni.

„Ég tel að reynsla mín af vettvangi sveitastjórna og þings nýtist vel í þessu mikilvæga embætti. Yfir 100 sveitarstjórnarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja í sveitarstjórnum um land allt og er mikilvægt að tengja þetta öfluga fólk betur við forystu flokksins og starfið á landsvísu,“ skrifar Bryndís meðal annars í færslu sinni.

Bryndís hefur setið á þingi síðan árið 2016 en hún er formaður allsherjar og menntamálanefndar ásamt því að sitja í fjárlaganefnd. Áður hefur hún setið í efnahag- og viðskiptanefnd, utanríkismálanefnd og verið varaforseti þings.

„Í þingstörfunum hefur dýrmæt reynsla mín úr sveitarstjórn nýst vel. Ég hef 16 ára reynslu úr sveitarstjórnarmálum, var 8 ár bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ og 8 ár þar á undan varabæjarfulltrúi. Ég var lengst af formaður skipulagsnefndar á mesta uppbyggingarskeiði í bæjarfélaginu. Ég var jafnframt formaður bæjarráðs, sat sem forseti bæjarstjórnar, var stjórnarformaður strætó, sat í svæðisskipulagsnefnd og hef gegnt ýmsum trúnaðarstörfum á vettvangi sveitarfélaganna,“ skrifar Bryndís jafnframt.

„Ég hlakka til að hitta góða félaga á landsfundi og óska eftir stuðning í embætti ritara,“ skrifar Bryndís að síðustu en færslu hennar má sjá í heild sinni hér að neðan.