Bryndís Schram, eiginkona Jóns Baldvins Hannibalssonar, sagði fyrir dómi að ef eitthvað hefði gerst í matarboðinu þá hefði hún séð það. Ef eitthvað hefði gerst þá hefði það verið í fyrsta sinn sem eiginmaður hennar hefði gert eitthvað sem væri svo móðgandi og niðurlægjandi fyrir sig.

Jón Baldvin er ákærður fyrir kynferðislega áreitt Carmen Jóhannsdóttur með því að hafa strokið rass hennar ákaft í vitna viðurvist á Spáni í júní 2018. Carmen hafi verið í matarboði uppi á þaki ásamt Jóni Baldvin, Bryndísi, Laufeyju móður sinni og vinkonu þeirra hjóna.

Bryndís Schram og Jón Baldvin.
Fréttablaðið/Vilhelm

Bryndís kom í réttarsal og lýsti kvöldverðinum. Hún talaði hratt. „Ég bað þær velkomnar í mitt hús og bauð þeim upp á mat. Ég hafði ekki sleppt orðinu þegar Laufey bara: „Jón Baldvin, nú skalt þú biðjast afsökunar, þú káfaðir á dóttur minni. Ég er búinn að heyra margar sögur um þig, þú ert ógeðslegur,“ sagði Bryndís.

„Þá stendur Carmen upp og segir: „Mamma ég get svarað fyrir mig sjálf“. Laufey heldur áfram, ég áttaði mig ekki á því hvað hún væri drukkin, hún var búin að hrósa okkur allan daginn, við hefðum hjálpað henni. Allt í einu var hún snúin. Hún var fárveik með kvölum alla daga og tæki sterk lyf á hverjum morgni og mætti ekki drekka ofan í lyfin, en hún var að drekka þarna. Ég fattaði það ekki strax. Hún var búin að drekka frá sér allt vit.“

Bryndís segir að mæðgurnar hafi farið undir eins.

„Maturinn var ekki snertur, við gengum öll niður og hún var komin með farangurinn út í bíl, hún ætlaði ekki að vera lengur. Þær voru með stóran hund hund og lítið barn.“

Barði í borðið

Bryndís hljómaði eins og hún væri í uppnámi við að lýsa kvöldinu og barði hún í borðið á einum tímapunkti. Hún sagði að kvöldverðurinn hafi staðið yfir í aðeins fimm mínútur. „Ég hafði haldið ræðu. Bauð þau velkomin í húsið og þá segir hún: „Jón Baldvin, þú káfaðir á dóttur minni, þú skalt biðja hana afsökunar“. Ég fékk bara sjokk, ég var svo óviðbúin þessu, ég ætlaði að gleðjast með þeim að hafa þær yfir helgina.“

Hún segir það alrangt að Carmen hafi verið að hella í glös. „Það er rugl, ég bað Jón að hella í glösin. Ég sagði svo skál við alla og hélt ræðu og hún stóð ekki upp aftur.“

Það sem hún hafi hugsað væri að hún hefði haldið að þær yrðu hjá heim yfir helgina.

„Mér fannst furðulegt að þær voru komnar út í bíl 5 mínútum seinna með allan farangurinn.“

Viss um að Jón Baldvin hafi hellt í glösin

Vinkona hjónanna sem var viðstödd matarboðið sagði einnig fyrir dómi að Carmen og Bryndís hafi verið að undirbúa matinn. „Carmen er rétt sest niður þegar Laufey öskrar á Jón að gjöra svo vel að biðjast afsökunar. Jón skildi ekki hvað hún var að tala um.“ Hún var viss um að Jón Baldvin hefði hellt í glösin.

„Hún var mjög dónaleg,“ sagði vitnið um Laufey. „Þá gerist það að Jón fer frá borðinu og Laufey heldur áfram í garð Bryndísar. Mjög ósmekkleg. Jón fer niður, ég sá ekki Carmen meira, þær sátu eitthvað lengur að tala saman, Laufey og Bryndís og ég fer. Kem við, Jón var niðri að lesa, og ég kvaddi þau.“

Tók hún undir vitnisburð Jóns Baldvins og Bryndísar að Laufey væri að taka lyf og drekka ofan í þau. Hún sagðist hafa verið í sjónlínu við Carmen og Jón Baldvin, hún hefði tekið eftir því ef hann hefði snert hana. „Ég reikna með því, einfaldlega því að mér er litið að henni þegar hún kemur.“

Hringdi í geðshræringu

Fyrrverandi kærasti Carmen, sem hún segist hafa hringt í rétt eftir atvikið, sagði að það rétt að hún hefði hringt.

„Hún var í tilfinningalegu uppnámi að Jón Baldvin hefði káfað á bakhluta hennar óumbeðið og í hennar óþökk án hennar vilja og samþykkis,“ sagði hann. „Hún var í mikilli geðshræringu yfir því sem hafði gerst.“

Verjandi Jóns Baldvins spurði út í samband hans og Carmen en dómari sagði vitnið ekki þurfa að svara því. „Þegar atvikið átti sér stað vorum við ekki í sambandi.“

Vinur Carmen, Íslendingur sem bjó í Torrevieja, segir að Carmen hafi hringt í sig grátandi. Tveimur til þremur tímum síðar hafi mæðgurnar komið til hans að gista. Hún hafi hringt heiman frá Bryndísi og Jóni Baldvin. „Hún var inni á klósetti. Var grátandi og vissi ekki hvernig hún ætti að haga sér.“

Hún hafi lýst atvikinu. „Hún var að skenkna víni eða vatni þegar hann kom við rassinn hjá henni,“ sagði hann. „Þegar þær komu til mín voru þær í sjokki. Mamma hennar er vinur þeirra og þær voru í algjöru sjokki að þetta hefði gerst. Bjuggust ekki við að þetta myndi gerast.“