Ítarleg greining á fyrirkomulagi móttöku þolenda heimilisofbeldis í heilbrigðisþjónustunni sýnir að brýn þörf er á samræmdu verklagi, bættri og samræmdri skráningu þessara mála og aukinni fræðslu fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Frá þessu er greint í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.

Starfshópur hefur skilað skýrslu með tillögu að verklagi ásamt tillögum um aðgerðir til að tryggja innleiðingu samræmds verklags og betri þjónustu við þennan hóp á landsvísu.

Meðal þess sem lagt er til er að tveir félagsráðgjafar verði ráðnir til starfa innan heilbrigðiskerfisins og sinni þolendum heimilisofbeldis á öllu landinu, sérfræðingur í meðferð áfalla í kjölfar heimilisofbeldis verði ráðinn á áfallamiðstöð LSH, að allar heilbrigðisstofnanir fræði allt heilbrigðisstarfsfólk sitt um heimilisofbeldi og rétt viðbrögð þeirra við því, að verklag í heimilisofbeldismálum verði sett inn í sjúkraskrárkerfið ásamt leiðbeiningum og að verklag fyrir réttarlæknisfræðilega skoðun verði innleitt með þróun hugbúnaðar í sjúkraskrárkerfinu.

Mörg tækifæri til að fá betri yfirsýn

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, segir niðurstöður skýrslunnar sýna glöggt að mikil tækifæri séu fyrir hendi til að fá betri yfirsýn yfir umfang þess alvarlega samfélags- og heilsufarsvanda sem heimilisofbeldi felur í sér, til að bæta þjónustu við þolendur þess og gera heilbrigðisstarfsfólki betur kleift að sinna þessum viðkvæmu málum eins og best verður á kosið.

„Ég er þess fullviss að samræmt verklag, öflug fræðsla til heilbrigðisstarfsfólks og stórátak í bættri rafrænni skráningu heilbrigðisupplýsinga í sjúkraskrá sé lykillinn að stórstígum framförum innan heilbrigðisþjónustunnar í þágu þolenda. Nú höfum við skýrar og vel grundaðar tillögur að byggja á og mikilvægt að hrinda þeim sem fyrst í framkvæmd“ segir Svandís.

Tillögur miðast við móttöku fullorðinna þolenda

Tillögur hópsins að samræmdu verklagi miðast við móttöku fullorðinna þolenda heimilisofbeldis af öllum kynjum, með áherslu á að hópurinn er fjölbreyttur og taka þurfi mið af því. Í skýrslunni er sérstaklega fjallað um börn sem þolendur heimilisofbeldis, þörf fyrir rafræna skráningu slíkra mála og tilkynningar til barnaverndar. Gert er ráð fyrir að barnavernd skuli ávallt send tilkynning ef börn eru á heimili þar sem heimilisofbeldi á sér stað.

Starfshópurinn var skipaður breiðum hópi 16 sérfræðinga frá heilbrigðisstofnunum, embætti landlæknis og félagsmálaráðuneytinu. Drífa Jónasdóttir sem leiddi starfið var ráðin tímabundið til heilbrigðisráðuneytisins til að sinna verkefninu. Auk þessa var leitað aðstoðar og ráðgjafar hjá fjölmörgum öðrum sem þekkja til þessara mála og er það rakið í skýrslunni sem er aðgengileg hér.