Arn­dís Anna Kristínar- og Gunnars­dóttir, þing­maður Pírata segir að það sé já­kvætt að kerfið okkar sé í stakk búið til þess að taka á móti fólki sem sækir um al­þjóð­lega vernd hér á landi. Hún segir að með slíkum fólks­fjölda mætum við ýmsum á­skorunum, en hún bendir á að stærri sam­fé­lög beri sig al­mennt betur.

Þann 16. septem­ber síðast­liðinn til­kynnti ríkis­lög­reglu­stjóri að við­búnaðar­stig á landa­mærum hefði verið hækkað í hættu­stig vegna yfir­á­lags. Em­bættið reiknar með að um­sækj­endum um al­þjóð­lega vernd muni fjölga mjög á næstu misserum. Í tilkynningu kom fram að búsetuúrræði væru nánast fullnýtt en um helgina var greint frá því að nýtt húsnæði hefði fundist til að bregðast við því.

„Það sem þarf fyrst að byrja skýra þegar við ræðum um þetta, hvað þýðir að það sé búið að auka við­búnaðar­stig og komið á hættu­stig. Þetta hljómar eins og það stafi ein­hver hætta af á­standinu og fólkinu, en það er ekki málið. Þetta snýst um það að núna er farið í á­kveðna ferla sem eru virkjaðir vegna þess fjölda fólks sem er að koma,“ segir Arn­dís.

Hún segir að til­gangurinn með því að virkja þessa ferla sé að tryggja að hægt sé að taka á móti því fólki sem er að sækja um al­þjóð­lega vernd hér á landi.

„Þetta er því að mörgu leyti já­kvætt, því það sýnir okkur það að við erum með kerfi sem er á­gæt­lega í stakk búið til þess að taka á móti tals­vert miklum fjölda. Mér finnst reyndar alltaf pínu­lítið gaman af þessari um­ræðu í ljósi þess að þegar ég var að byrja að skipta mér af flótta­manna­málum fyrir all­nokkrum árum síðan, þá man ég að við töluðum um hvað ef að fjöldinn færi yfir hundrað, hvað gerum við þá. Núna erum við búinn að sýna það að hingað hafa komið yfir tvö þúsund manns og okkur hefur tekist nokkuð vel að láta það ganga, án ein­hverja stórra á­falla,“ segir Arn­dís.

Fólk festist í búsetuúrræðum

Arn­dís segir að við inn­rás Rúss­lands í Úkraínu hafi þjóðir Evrópu sett í gang ferla og virkjuðu svo kallað fjölda­flótta á­kvæði. Hún segir þetta á­kvæði hafa á­kveðna kosti og galla.

„Það hefur þann galla helstan að fólkið fær ekki stöðu flótta­manns eins og það ætti rétt á sam­kvæmt al­þjóða­samningum, heldur fær það dvalar­leyfi á grund­velli mann­úðar­sjónar­miða, sem er tíma­bundið dvalar­leyfi til eins árs í einu og því fylgir ekki at­vinnu­leyfi. Þetta þýðir það að allir þessir ein­staklingar þurfa að byrja á að finna sér vinnu áður en þeir fá at­vinnu­leyfi. Það tekur tíma að af­greiða um­sókn um at­vinnu­leyfi og annað og kannski ekki margir at­vinnu­rek­endur sem eru til­búnir að bíða eftir því. Þar myndast tals­vert hár þröskuldur fyrir fólk að finna vinnu og fólk festist í þessum bú­setu­úr­ræðum. Það er einn vandinn sem við þurfum að leysa,“ segir Arn­dís.

Arn­dís segist vera að leggja fram frum­varp um breytingar á lögum sem bætir veru­lega úr stöðu þeirra sem fá dvalar­leyfi hér á landi á grund­velli mann­úðar­sjónar­miða, að því leyti að þeir fái sjálf­krafa at­vinnu­leyfi.

„Þessu frum­varpi var sópað út af borðinu núna í vor því miður. En núna hef ég lagt það fram að öðru sinni og vona að það nái í gegn, þannig þá er hægt að leysa vanda hóps af þessum fjölda, sem að getur þá fundið sér vinnu og farið að sjá um sig sjálft,“ segir Arn­dís.

Ríkisstjórnin aukið eftirspurn án þess að tryggja framboð

Í til­kynningu ríkis­lög­reglu­stjóra segir að bú­setu­úr­ræði séu nánast full­nýtt og að hækkun á við­búnaðar­stigi sé liður í að bregðast við þeirri stöðu. Þessi úr­ræði séu oft á tíðum hótel, en Arn­dís segir að það sé ekki góð lang­tíma­lausn.

„Það er enginn fjöl­skylda sem býr í lengri tíma á hóteli. Þannig þetta eru tíma­bundin úr­ræði og það er mjög gott að sjá það að stjórn­völd séu fær um að grípa inn í og finna leiðir til þess að fólk sé ekki á götunni, enda vart hægt að vera lengi á götunni á Ís­landi eins og veðr­áttan er hér,“ segir hún og bætir við að með sínum að­gerðum hafi ríkis­stjórnin aukið eftir­spurn í slík úr­ræði, í stað þess að tryggja fram­boðið.

„Þetta er auð­vitað eitt­hvað sem verður að komast í lag og er kannski það sem við eigum að vera tala um,“ segir Arn­dís.

Jákvætt að þjóðin sé að stækka

Arndís segir að allt bendi til þess að fólksflutningar og fólksflótti muni aukast á næstu árum vegna aðstæðna í heiminum.

„Það er allt sem bendir til þess að fólks­flutningar al­mennt og fólks­flótti líka, sem við köllum þvingaða fólks­flutninga muni aukast á næstu misserum af ýmsum á­stæðum. Þannig það er mjög brýn þörf á því að við tökum þetta allt til skoðunar og horfum til lengri tíma, að þjóðin mun stækka og það er bara já­kvætt. Stærri sam­fé­lög bera sig betur fjár­hags­lega til dæmis og ég endur­tek að sam­fé­lög eru fólk,“ segir Arndís.

Hægt er að sjá viðtalið við Arndísi í heild sinni í Fréttavaktinni hér fyrir neðan.