Óttar Kolbeinsson Proppé
ottar@frettabladid.is
Sunnudagur 25. október 2020
18.40 GMT

„Það er í fljótu bragði erfitt að átta sig á því,“ svarar Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn hjá al­manna­vörnum, þegar hann er spurður út í hvort at­hæfi út­gerðar frystitogarans Júlíusar Geirmunds­sonar sé refsi­vert. Svarið endur­speglar vel flókna stöðu sem upp er komin, því ekkert á­kvæði í sótt­varna­ögum eða reglu­gerðum heil­brigðis­ráð­herra fjallar bein­línis um að­stæður á­hafnar á skipum. Þá virðast flestir sem tengjast málinu ó­vissir eða ó­sam­mála um hvaða at­hæfi skip­stjórans og út­gerðarinnar teljist til brota og þá einnig á grundvelli hvaða laga og reglna. Sótt­varna­læknir segir þó að hafi grunur leikið á smiti um borð snemma í veiði­ferðinni en skip­stjóri og út­gerð beðið með að til­kynna það í þrjár vikur sé það líklega brot á sótt­varna­lögum.

„Það er kannski erfitt að segja til um það í einu vet­fangi. Það er hægt að túlka ýmis at­riði sem koma fram í sótt­varna­lögum en ég held að hér sé vert að benda á til­kynningar­skyldu á al­var­legum sjúk­dómum í sótt­varna­lögum,“ segir Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir í sam­tali við Frétta­blaðið. „Ef grunur er um að menn hafi talið mögu­legt að smit væri fyrir hendi þá er mjög al­var­legt að það hafi verið beðið með að til­kynna það í ein­hverjar þrjár vikur.“

Þórólfur segir málið mjög alvarlegt. Hann kveðst enginn lögfræðingur vera en dettur helst í hug að um gæti verið að ræða mögulegt brot á sóttvarnalögum.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Ef grunur vaknar um til­kynningar­skyldan sjúk­dóm þá verður að reyna að ganga úr skugga um hvort hann sé til staðar eða ekki einn, tveir og þrír,“ segir hann.

Allir sammála um eitt

Frétta­blaðið hefur sett sig í sam­bandi við þá sem eiga hlut að máli; Verka­lýðs­fé­lag Vest­firðinga, sem er stéttar­fé­lag skip­verjanna um borð, Al­þýðu­sam­band Ís­lands (ASÍ), al­manna­varnir, lög­regluna á Vest­fjörðum og sótt­varna­yfir­völd. Allir virðast sam­mála um að út­gerðin fylgdi alls ekki þeirri við­bragðs­á­ætlun, sem var gerð í sam­starfi stéttar­fé­laganna, Sam­taka fyrir­tækja í sjávar­út­vegi (SFS) og sótt­varna­yfir­valda. Það virðast út­gerð togarans, Haf­frysti­húsið Gunn­vör, og SFS einnig sam­mála um. Sótt­varna­læknir segir að við­bragðs­á­ætlunin sé að mestu samin af sótt­varna­yfir­völdum. Viðbragðsáætlunin er hins vegar ekki lög og getur ekki verið refsiheimild ein og sér.

Verka­lýðs­hreyfingin hefur í­trekað kallað eftir því að lög­reglu­rann­sókn á málinu fari fram. Lífi og heilsu sjó­mannanna hafi greini­lega verið stefnt í hættu af út­gerðinni þegar á­kvörðun var tekin um að halda ekki beint í land þegar veikindin komu upp. Í þriggja vikna löngum túrnum sýktust 22 af 25 manna á­höfn togarans.


Brot á sjó­manna­lögum?


Í sam­tali við Frétta­blaðið sagði Drífa Snæ­dal, for­seti ASÍ, að fyrir sér væri helsta á­hyggju­efnið að út­gerðin hafi farið gegn áður­nefndum til­mælum sótt­varna­yfir­valda fyrir skips­ferðir. Hún segir að það þurfi að rann­saka það sér­stak­lega og sagði það óforsvaranlegt ef rétt reyndist að útgerð og skipstjóri hefðu hunsað beiðni umdæmislæknis sóttvarna á Vestfjörðum um að halda í land vegna veikindanna um borð. Þessu var haldið fram í yfirlýsingu frá Sjómannasambandi Íslands. Umdæmislæknirinn á þá að hafa ítrekað beiðni sína en allt kom fyrir ekki; togarinn hélt veiðiferðinni áfram.

Finn­bogi Svein­björns­son, for­maður Verka­lýðs­fé­lags Vest­firðinga, segir það aftur á móti ljóst að út­gerðin hafi framið brot á sjó­manna­lögum. Í 34. gr. þeirra segir:

„Ef á­stæða er til að ætla að skip­verji sé haldinn sjúk­dómi sem hætta stafar af fyrir aðra menn á skipinu skal skip­stjóri láta flytja sjúk­linginn í land ef eigi reynist unnt að verjast smit­hættu á skipinu.“

Skip­verjarnir greindu þá frá því að skortur hafi verið á lyfjum um borð í togaranum og því hafi ekki allir fengið verkja­lyf, sem töldu sig þurfa á þeim að halda, heldur að­eins þeir sem veikastir voru. Í sömu grein sjó­manna­laganna segir:

„Veikist skip­verji eða slasist skal skip­stjóri sjá um að hann fái nauð­syn­lega um­önnun á skipinu eða í landi, þar með talið hjúkrun, læknis­hjálp, lækninga­efni og fram­færi . . .“


„Ef skip­stjóri mis­beitir aga­valdi sínu eða beiti hann ó­nauð­syn­legri harð­neskju við skip­verja, van­ræki skyldur sínar við veika eða slasaða skip­verja [...] varðar það [fangelsi allt að tveimur árum eða fangelsi allt að fjórum árum ef miklar sakir eru]

Allt í höndum lög­reglunnar á Vest­fjörðum


Síðan far­aldurinn hófst hafa ýmis brot verið framin á sótt­varna­lögum. Bæði eru dæmi um brot ein­stak­linga á sótt­kví eða ein­angrun en einnig brot fyrir­tækja á reglu­gerðum ráð­herra. Til dæmis hafa ein­hverjir skemmti- og veitinga­staðir verið sektaðir fyrir of háan gesta­fjölda.

Sektir og rann­sóknir á slíkum brotum eru í höndum lög­reglu­em­bættanna þar sem brotin hafa verið framin. Víðir Reynis­son hjá al­manna­vörnum segir í sam­tali við Frétta­blaðið að al­manna­varnir komi hvergi ná­lægt þeim. „Al­manna­varnir hafa engar rann­sóknar­heimildir og ríkis­lög­reglu­stjóri fer ekki með rann­sókn á neinum brotum,“ segir hann. Mál togarans er þannig al­farið í höndum lög­reglunnar á Vest­fjörðum.

Víðir Reynisson
Fréttablaðið/Valli

Lög­reglu­stjórinn á Vest­fjörðum, Karl Vil­bergs­son, segir að það sé til skoðunar innan em­bættisins hvort grund­völlur fyrir form­lega rann­sókn sé fyrir hendi. Spurður um hvernig ferli slíkra á­kvarðana fer fram segir hann:

„Það þarf að skoða það hvort það liggi grunur á að brot á ein­hverjum al­mennum lögum hafi verið framið og svo þarf líka að sjá hvort það sé refsi­heimild við því broti í lögunum.“ Að­spurður hvort em­bættið muni þannig kanna bæði hvort út­gerðin hafi brotið sótt­varna­lög með því að sinna ekki til­kynningar­skyldu og sjó­manna­lögum með því að verða ekki við ofan­greindum orðum í lögunum, segir hann ein­mitt svo vera.

Ljóst er að refsi­heimildir eru til staðar í báðum þessum lögum. Refsi­heimild fyrir broti gegn sjó­manna­lögum hljómar svona: „Brjóti út­gerðar­maður eða skip­stjóri annars á móti skyldum þeim sem honum eru lagðar á herðar í lögum þessum varðar það sektum.“ Einnig segir í sömu lögum: „Ef skip­stjóri mis­beitir aga­valdi sínu eða beiti hann ó­nauð­syn­legri harð­neskju við skip­verja, van­ræki skyldur sínar við veika eða slasaða skip­verja eða láti hann skip­verja eigi fá lög­boðið viður­væri varðar það sektum, [fangelsi allt að tveimur árum eða fangelsi allt að fjórum árum ef miklar sakir eru].“ Brot á sótt­varna­lögum getur þá varðað við sektum eða fangelsi allt að þremur mánuðum.

Þá varðar það einnig allt að að þriggja ára fangelsi að valda hættu á því að „næmur sjúk­dómur komi upp eða berist út meðal manna með því að brjóta gegn laga­fyrir­mælum um varnir gegn næmum sjúk­dómum eða var­úðar­reglum yfir­valda, sem þar að lúta“. Um þetta er kveðið á um í 175. gr. al­mennra hegningar­laga. Þar segir einnig að refsinguna megi hækka í allt að sex ár sé um að ræða sjúk­dóma sem hið opin­bera hafi gert sér­stakar ráð­stafanir til að hefta eða af­stýra, að berist hingað til lands.

Sé brot gegn þessu á­kvæði framið af gá­leysi varðar það sektum eða allt að sex mánaða fangelsi.


„Síðar kom í ljós að lyfja­birgðir voru ekki nægar og þurfti þá að hand­velja úr hverjir væru veikastir og þyrftu mest á verkja­lyfjum að halda.“

Karl segir að ef farið verði í rann­sókn á málinu þurfi lög­regla að taka skýrslur af skip­verjunum og út­gerðinni og meta svo stöðuna. Málið fari ekki svo langt nema á­kvörðun um rann­sókn verði tekin. Að­spurður hvort það sé ekki ljóst af öllu sem komið hefur fram í fjöl­miðlum undan­farna daga að fullt til­efni sé til slíkrar rann­sóknar segir hann: „Við verðum bara að fá að meta það. Það verður væntan­lega komið í ljós snemma í næstu viku.“

„Skelfilegar“ aðstæður um borð

Skip­verjarnir tjáðu upp­lifun sína af sjó­ferðinni í til­kynningu sem Verka­lýðs­fé­lag Vest­fjarða sendi á fjöl­miðla síðasta föstu­dag. Fóru þeir þar yfir hvernig margir hefðu látið sig hafa að vinna veikir og hvernig að­stæður þeirra sem voru of veikir og settir í ein­angrun voru.

„Að­­stæður skip­verja voru því vægast sagt skelfi­­legar þar sem þeir veiktust einn af öðrum og höfðu ekki aðrar bjargir en verkja­lyf til að halda sér gangandi þar sem skipið var við veiðar og vinnslan í gangi,“ segir í til­­­kynningunni. „Síðar kom í ljós að lyfja­birgðir voru ekki nægar og þurfti þá að hand­velja úr hverjir væru veikastir og þyrftu mest á verkja­lyfjum að halda.“

Skip­verjarnir segja þá einnig að þeim hafi verið bannað að ræða veikindi sín út á við við aðra en fjöl­skyldu­með­limi sína. „Í­trekað var að ræða ekki veikindin og á þriðju viku sjó­­ferðar var sett á al­­gert bann við að minnast á veikindin á sam­­fé­lags­­miðlum eða við frétta­­menn. Þannig var skip­verjum haldið nauðugum og veikum við vinnu út á sjó, í brælu og lé­­legu fis­keríi á meðan Co­vid sýking herjaði á á­höfnina.“

Háseti, sem var um borð í skipinu, Arnar Hilmarsson, ræddi við RÚV um málið í gær.

Þór Ólafur Helgason, yfirvélstjóri togarans, sagði sína hlið á málinu í samtali við Vísi í dag.

Athugasemdir