Siða­nefnd Blaða­manna­fé­lags Ís­lands hefur úr­skurðað Haf­liða Breið­fjörð, stofnanda og á­byrgðar­mann Fót­bolta.net auk rit­stjóranna Magnús Má Einars­son og Elvar Geir Magnús­son brot­lega við siða­reglur fé­lagsins vegna nafn-og mynd­birtingar á Andreu Rán Snæ­feld Hauks­dóttur, knatt­spyrnu­konu sem greindist með CO­VID-19.

Fót­bolti.net var fyrsti miðillinn til að nafn­greina Andreu þegar í ljós kom að leik­maður í kvenna­liði Breiða­bliks hefði greinst með Co­vid-19. Miðillinn birti greinina þann 25. júní síðast­liðinn sem ber heitið Ís­lands­mótið í upp­námi? -Leik­maður Breiða­bliks greind með Co­vid-19 og mynd af Andreu fylgir greininni.

Í úr­skurði Siða­nefndar kemur fram að hún telji megin­at­riði málsins þau að nafn Andreu hafi verið birt í heimildar­leysi auk myndar af henni í tengslum við frétt af smiti leik­manns í úr­vals­deild kvenna í knatt­spyrnu.

Vísað er til 3. og 4. greinar siða­reglnanna, sem kveða á um að blaða­menn skuli sýna fyllstu til­lits­semi í vanda­sömum málum og forðast allt það sem valdið geti sak­lausu fólki, eða fólki sem eigi um sárt að binda, ó­þarfa sárs­auka og van­virðu annars vegar og hins vegar að blaða­menn skuli hafa í huga hve­nær al­mennt öryggi borgaranna, sér­stakir hags­munir al­mennings eða al­manna­heill krefjist nafn­birtingar.

Sjálf sagði Andrea frá því að nafn­birtingin hefði reynst henni á­fall. „Það fóru til­finningar af stað sem ég hef aldrei fundið áður. Þetta var vont fyrir en þetta versnaði eftir að nafnið mitt var birt. Það gáttu allir vitað að það var ég sem var smituð, ekki bara fólk innan knatt­spyrnu­hreyfingarinnar.“

Hún segir að það hafi verið erfitt að takast á við um­fjöllunina enda var hún í ein­angrun.

„Ég er bara þakk­lát fyrir allt góða fólkið í kringum mig, annars væri ég ef­laust enn þá að kenna sjálfri mér um þetta.“

Ekki tilbúnir að tjá sig um niðurstöður dómsins

Hafliði Breiðfjörð tjáir sig inni á Facebook hópnum Fjölmiðlanördar um málið. Þar segir hann undir færslu Jakobs Bjarnars Grétarssonar, blaðamanns Vísis, að forsvarsmenn miðilsins séu ekki tilbúnir til þess að tjá sig um málið.

„Við erum ekki tilbúnir að tjá okkur niðurstöðu dómsins að svo stöddu. Ég vil þó benda á þetta. Allir helstu fjölmiðlar landsins völdu að fara sömu leið og Fotbolti.net og birtu nafn leikmannsins. RÚV og Stöð 2 unnu sínar fréttir útfrá sínum eigin uppýsingum og nafnbirtu leikmanninn óháð frétt Fotbolti.net. mbl, Vísir, Fréttablaðið, DV og Mannlíf birtu einnig nafnið og vísuðu í frétt Fotbolti.net. Allir þessir fjölmiðlar lúta sjálfstæðri ritstjórn sem taldi að nafnbirting væri rétt.“