Þorvaldur S. Helgason
thorvaldur@frettabladid.is
Laugardagur 19. nóvember 2022
10.00 GMT

Þann 19. nóvember 1942, fyrir ná­kvæm­lega 80 árum, var pólski rit­höfundurinn Bruno Schulz skotinn til bana af nas­ista­foringja í Drohobych-gettóinu í Pól­landi. Eftir Bruno liggja að­eins tvö smá­sagna­söfn og nokkrar teikningar, en engu að síður hefur ein­stök frá­sagnar­gáfa og ráð­gátan um af­drif fyrstu og einu skáld­sögu hans skráð nafn þessa hæg­láta gyðings á spjöld sögunnar og heims­bók­menntanna.

Þrúgandi heimilis­líf

Bruno Schulz fæddist 12. júlí árið 1892 í Drohobych, fá­mennum bæ í héraðinu Galisíu, sem heyrði þá undir pólska konungs­veldið en til­heyrir nú Úkraínu. Bruno var yngstur þriggja barna hjónanna Jacobs og Henriettu, kaup­manna af gyðinga­ættum. Jacob, faðir Brunos, rak litla vefnaðar­vöru­verslun sem hét eftir konu hans: Henrietta Schulz. Hann var heilsu­veill maður sem þjáðist meðal annars af berklum og krabba­meini og settu veikindin stórt strik í líf Schulz-fjöl­skyldunnar.

Bruno erfði sitt­hvað af tauga­veiklun föður síns; sem barn var hann heilsu­veill og sagt er að hann hafi vart hætt sér út á svalirnar á heimili sínu án þess að vera í fylgd móður sinnar. Henrietta, móðir Brunos, var að mörgu leyti and­stæða eigin­manns síns, sterk­byggð og glað­lynd í skapi sem mildaði þrúgandi and­rúms­loftið á heimilinu. Hún hafði þó stöðugar á­hyggjur af syni sínum og eigin­manni; vafði Bruno í bóm­ull og var allt að því einka­hjúkrunar­kona Jacobs.

Bruno Schulz skildi aðeins eftir sig tvö smásagnasöfn, Kanilbúðirnar og Heilsu­hæli undir merki stunda­glassins, sem er gjarnan safnað saman í eina bók undir heitinu Krókódílastrætið.
Mynd/Wikipedia

Sælu­ríki bernskunnar

Þótt barn­æska Brunos hafi ekki verið sam­fellt sumar­land þá átti hún eftir að vera það tíma­bil í lífi hans sem hann endur­heim­sótti hvað mest þegar á leið og þegar á reyndi. Sögur Brunos eru allar að ein­hverju leyti byggðar á barn­æsku hans, en sögu­maðurinn er ungur drengur að nafni Joseph, sem minnir um margt á hinn hlé­dræga og dreymna Bruno.

Æsku Josephs er lýst sem goð­sagna­kenndum heimi þar sem hvers­dags­legir at­burðir í lífi hans fá á sig eins konar dul­rænan blæ og staðir í næsta ná­grenni Drohobych um­breytast í heillandi og framandi töfra­ver­öld. Fyrir Bruno var bernskan eins konar sælu­ríki og voru sögurnar leið hans til að endur­vekja hana.

Bruno Schulz myndskreytti gjarnan sjálfur smásögur sínar.
Mynd/Wikipedia

Blessun og bölvun

Bruno stundaði nám í arki­tektúr í Lvív og Vínar­borg á árunum í kringum fyrri heims­styrj­öld, en kláraði aldrei próf sökum lé­legs heilsu­fars og ó­friðar­á­standsins í Evrópu. Árið 1924 fékk hann starf sem kennari í teikningu og hand­íðum við Ríkis­skóla Wla­dyslaw Jagi­ello konungs, sama skóla og hann hafði stundað nám við sem drengur, sem hann átti eftir að gegna til 1941.

Kennara­starfið var Bruno bæði blessun og bölvun að því leyti að það veitti honum fjár­hags­legt öryggi en tók yfir mest­allan tímann sem hann hefði annars getað nýtt til eigin list­sköpunar. Engu að síður var það um þetta leyti sem list­rænn ferill Brunos Schulz byrjaði að blómstra. Hann hélt fyrstu einka­sýninguna á myndum sínum í Var­sjá 1922 og tók þátt í sýningum í Vil­níus, Lvív og Kraká á næstu árum.


Úr sögunni Kanil­búðirnar úr smá­sagna­safninu Krókódíla­strætið:

„Ég kom út í vetrar­nótt sem tindraði af birtu himinsins. Þetta var ein af þessum heið­skíru nóttum þegar stjörnu­himinninn er svo djúpur og víð­feðmur að engu er líkara en hann hafi sundrast í margar að­skildar hvelfingar sem nægðu til að þekja heilan mánuð vetrar­nótta og auk þess tjalda til silfri og máluðum himin­hnöttum fyrir öll nætur­fyrir­bæri, ævin­týri, upp­á­komur og kjöt­kveðju­há­tíðir sem tíminn bæri í skauti sér.“


Teikningar eftir Bruno Schulz.
Mynd/Wikipedia

Skálda­draumar og út­gáfa

Árið 1930 kynntist Bruno skáld­konunni De­boru Vogel í gegnum sam­eigin­legan vin. Þau mynduðu djúpa vin­áttu í gegnum sam­eigin­legan á­huga á bók­menntum og listum og í gegnum De­boru byrjaði skálda­ferill Brunos að blómstra. Í bréfum sínum til hennar byrjaði Bruno að bæta við löngum eftir­málum sem inni­héldu upp­köst að smá­sögum.

De­bora tók bréfunum vel og hvatti Bruno til að halda á­fram með sögurnar, sem hann og gerði. Þegar smá­sögurnar voru farnar að taka á sig mynd safnaði Bruno þeim saman í hand­rit sem De­bora hjálpaði honum að senda til rit­höfundarins Zofiu Nal­kowsku, sem var á­hrifa­mikil manneskja í pólsku menningar­lífi. Það var svo í gegnum Nal­kowsku sem fyrsta smá­sagna­safn Brunos kom út undir árs­lok 1933 þegar höfundurinn var 41 árs að aldri. Bókin bar pólska titilinn Sklepy cyna­monowe, sem á ís­lensku út­leggst sem Kanil­búðirnar.

Bókin vakti þó­nokkra at­hygli í pólsku bók­mennta­sam­fé­lagi og hlaut góðar við­tökur. Bruno fylgdi Kanil­búðunum svo eftir með öðru smá­sagna­safni 1937, Heilsu­hæli undir merki stunda­glassins. Þessum tveimur bókum er gjarnan safnað saman í eitt safn undir heitinu Krókódíla­strætið, á­samt stökum smá­sögum Brunos. Árið 1938 var Bruno svo sæmdur stærstu viður­kenningu ferils síns, þegar hann hlaut hin virtu bók­mennta­verð­laun Pólsku akademíunnar.


Móðir mín vakti mig um morguninn og sagði: Jósef, Messías er að nálgast; fólk hefur séð hann í Sam­bor.


Endur­reisn á öld snilli­gáfunnar

Um þetta leyti var Bruno þegar byrjaður að leggja drög að sinni fyrstu skáld­sögu sem bar vinnu­titilinn Messías. Messías átti að verða meistara­verk Brunos; eins konar hold­gerving á þeirri grund­vallar­kenningu hug­mynda­fræði hans að koma frelsara gyðinga myndi færa mann­kynið aftur til sælu­ríkis bernskunnar og endur­reisa öld snilli­gáfunnar.

Bruno gekk þó hægt að koma skáld­sögunni á blað og entist ekki aldur til að klára hana. Ekkert hefur varð­veist af Messíasi og lítið er vitað um efni hennar eða inni­hald. Þó er vitað til þess að Bruno las upp úr frum­drögum hand­ritsins fyrir nokkra vini sína á stríðs­árunum og sam­kvæmt frá­sögnum við­staddra hófst hún ein­hvern veginn á þessa leið: „Móðir mín vakti mig um morguninn og sagði: Jósef, Messías er að nálgast; fólk hefur séð hann í Sam­bor.“

Krókódílastrætið, fyrsta smásagnasafn Bruno Schulz, kom út á íslensku 1994 í þýðingu Hannesar Sigfússonar.
Mynd/Aðsend

Undir verndar­væng nas­ista

Þann 17. septem­ber 1939 réðust nas­istar inn í Drohobych, seinni heims­styrj­öldin var hafin og Bruno þurfti að setja skálda­drauminn aftur á hilluna. Hann gerði sitt besta til að að­lagast breyttu skipu­lagi en ljóst var að lítið pláss var fyrir við­kvæman rit­höfund af gyðinga­ættum í miðju stríði.

Bruno fékk tíma­bundna náð hjá nas­ista­yfir­völdum, hlaut stöðu „nauð­syn­legs gyðings“ og var tekinn undir verndar­væng Gestapó­foringjans Felix Landau. Sá var hús­gagna­smiður frá Vínar­borg sem þrátt fyrir að eiga föður af gyðinga­ættum var einn al­ræmdasti gyðinga­morðingi Drohobych.

Landau fékk Bruno til að vinna fyrir sig ýmis störf, sem fólust meðal annars í því að skreyta barna­her­bergi í villu Landau-fjöl­skyldunnar með vegg­myndum byggðum á Grimms­ævin­týrum. Árið 2001 endur­upp­götvaði þýskur heimilda­gerðar­maður þessar vegg­myndir, en hluti þeirra var fjar­lægður af starfs­mönnum hel­farar­safnsins Yad Vas­hem og fluttur til Ísraels, sem olli al­þjóð­legu hneykslis­máli.

Hillary Clinton skoðar brot af veggmyndum Bruno Schulz á Yad Vas­hem helfararsafninu í Jerúsalem 2009.
Fréttablaðið/Getty

Skotinn tvisvar í höfuðið

Undir árs­lok 1941 var Bruno gert að yfir­gefa heimili sitt og flytja inn í íbúð í gyðinga­gettói Drohobych. Fyrir flutningana skipti hann lista­verkum sínum og ó­út­gefnum sögum í nokkra pakka sem hann af­henti kaþólskum kunningjum. Lítið er vitað um þessa ein­stak­linga eða inni­hald pakkanna, en leiða má líkur að því að ein­hverjir þeirra hafi inni­haldið hand­rit að nánast full­kláruðu smá­sagna­safni og frum­drög skáld­sögunnar Messíasar.

Bruno þoldi illa við í gettóinu, heilsu hans hrakaði og hann skrifaði ör­væntingar­full bréf til vina sinna í Var­sjá, sem lögðu á ráðin um að bjarga honum frá Drohobych. Allt kom þó fyrir ekki því Bruno flæktist inn í deilur Felix Landau og annars Gestapó­foringja sem hét Karl Günt­her. Landau, verndari Brunos, hafði nefni­lega myrt gyðing undir verndar­væng Günt­hers.

Í hefndar­skyni skaut Günt­her Bruno Schulz tvisvar í höfuðið og myrti hann á götu úti 19. nóvember 1942, sama dag og Bruno hefði átt að flýja til Var­sjár. Günt­her gortaði sig síðar af því við Felix Landau: „Þú drapst minn gyðing, ég drap þinn.“ Verndar­vængur nas­istans hafði reynst Bruno bjarnar­greiði.


Í hefndar­skyni skaut Günt­her Bruno Schulz tvisvar í höfuðið og myrti hann á götu úti 19. nóvember 1942, sama dag og Bruno hefði átt að flýja til Var­sjár. Günt­her gortaði sig síðar af því við Felix Landau: „Þú drapst minn gyðing, ég drap þinn.“


Leitin að Messíasi

Hvorki tangur né tetur hefur fundist af Messíasi, hinni ó­kláruðu skáld­sögu Brunos Schulz, en leitin að bókinni hefur þó orðið fjöl­mörgum rit­höfundum, blaða­mönnum og fræði­mönnum inn­blástur. Pólska skáldið Jerzy Ficowski, ævi­sagna­ritari Brunos, flæktist í dular­fullt mál á 9. ára­tug síðustu aldar sem inni­hélt ó­skil­getinn bróður­son Brunos Schulz, sænska sendi­herrann í Var­sjá og dular­fullan aðila sem kvaðst hafa hand­ritið að Messíasi í fórum sínum. Slóð bókarinnar hvarf þó jafn­óðum og hún birtist og sumir efast jafn­vel um að hún hafi nokkurn tíma verið til. Sú reyfara­kennda frá­sögn er rekin í grein banda­ríska rabbínans Niles Elliot Gold­stein, „Chasing ‘The Messiah’ and Bruno Schulz's Long-Lost Novel“.

Árið 2019 urðu þau tíðindi að týnd smá­saga eftir Bruno Schulz upp­götvaðist í skjala­safni í úkraínsku borginni Lvív. Bruno hafði birt söguna Undula, undir dul­nefninu Marceli Weron í Świt, dag­blaði olíu­iðnaðarins í Drohobych. Sagan fjallar um masókískar fantasíur rúm­fasts manns og er talin bera mörg af helstu höfundar­ein­kennum Brunos Schulz.

Þótt Messías sjálfur reynist enn utan seilingar veitir upp­götvun sögunnar heit­trúuðum að­dá­endum Brunos Schulz sem bíða enn komu frelsarans, von.

Greinin er að hluta byggð á þættinum Leitin að Messíasi sem birtist í út­varps­þátta­röðinni Listin að brenna bækur á Rás 1 2019.

Athugasemdir