Mikill viðbúnaður slökkviliðs er nú í Selvogsgrunni í Reykjavík vegna bruna í þaki í þriggja hæða húsi í götunni. Tilkynning um brunann barst slökkviliði rétt eftir klukkan 21 í kvöld. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu voru allar tiltækar stöðvar sendar á vettvang en enginn slasaður. Eldurinn er að sögn varðstjóra í þakinu og má vera að það þurfi að rífa hluta þess af.

Samkvæmt upplýsingum frá íbúa í húsinu eru yfirstandandi þakviðgerðir í húsinu og taldi hann líklegt að eldurinn hefði kviknað í tengslum við það þótt svo að engin vinna hafi verið á þeim tíma sem eldurinn kviknaði. Slökkvilið er við vinnu á þakinu og gengur nú úr skugga um að búið sé að slökkva allan eld.

Fréttin hefur verið uppfærð.