Máli fyrrverandi eigenda Brúneggja gegn Ríkisútvarpinu og Matvælastofnun var í hádeginu vísað frá dómi í Héraðsdómi Reykjavíkur. En málið, sem félögin Bali ehf og Geysir fjárfestingafélag, höfðuðu var til að fá viðurkenningu á skaðabótum vegna umfjöllunar Kveiks í nóvember árið 2016.

Eggjaframleiðandinn Brúnegg varð gjaldþrota nokkrum mánuðum eftir umfjöllun Kveiks, sem fjallaði um slæman aðbúnað hænsfuglanna og að eggin væru ranglega merkt sem vistvæn. Hættu allir smásalar samstundis viðskiptum við Brúnegg og fór félagið í 280 króna þrot.

Málið var þingfest fyrir ári en tekist var um frávísunarkröfu Ríkisútvarpsins og Matvælastofnunar í upphafi desembermánaðar. Telja félögin, sem Kristinn Gylfi Jónsson fer fyrir, að fréttaflutningurinn hafi verið villandi og rangur og að Matvælastofnun hafi farið út fyrir valdsvið sitt við upplýsingagjöf til Ríkisútvarpsins.

Frávísunarkrafan var byggð á því að formgallar væru á kröfugerðinni og þar væru blandað saman dómkröfum og málsástæðum. Einnig að tjónið væri bæði talið eigendanna, það er hluthafa í Brúneggjum, og félagsins sjálfs. Væri því verið að tvíkrefja um tjónið.

Dómarinn, Kristrún Kristinsdóttir, féllst á málflutning Ríkisútvarpsins og Matvælastofnunar og var Bala og Geysi gert að greiða þeim 400 þúsund krónur í lögfræðikostnað hvorri stofnun.