Mál fyrrverandi eigenda Brúneggja gegn Ríkisútvarpinu og Matvælastofnun er aftur komið á dagskrá héraðsdóms. Landsréttur sneri við frávísunarúrskurði héraðsdóms frá því í desember og verður málið tekið fyrir í dag.

Málið er rekið af eignarhaldsfélögunum Bala og Geysi sem telja sig eiga skaðabótakröfu á stofnanirnar vegna umfjöllunar Kastljóss árið 2017. En þar var sagt frá slæmum aðbúnaði hænsnfugla og að Brúnegg væru auglýst sem vistvæn án þess að uppfylla skilyrði.

Forsvarsmenn félaganna telja að fréttaflutningurinn hafi verið villandi og rangur og að Matvælastofnun hafi farið út fyrir valdsvið sitt þegar það gaf Ríkisútvarpinu upplýsingar. Eftir þáttinn fór félagið rakleitt í 280 milljóna króna gjaldþrot.

Vörn Ríkisútvarpsins og Matvælastofnunar var byggð á því að formgallar væru á kærunni og héraðsdómur tók undir það. Taldi hann að málatilbúnaðurinn hefði ekki verið skýr og kærendur ekki gert nægilega vel grein fyrir tjóni sínu.

Ríkisútvarpið skaut málinu til Landsréttar vegna þess að félaginu fannst málskostnaðurinn sem stofnanirnar áttu að fá frá eignarhaldsfélögunum, 400 þúsund krónur, ekki nógu hár. Í úrskurði Landsréttar frá 6. apríl, sem birtur var fyrir helgi, var frávísun héraðsdóms hins vegar felld úr gildi.