Öku­maður ók bíl sínum á miklum hraða fram úr lög­reglu­bíl sem var í eftir­lits­ferð á Reykja­nes­braut um helgina. Þetta kemur fram í til­kynningu frá lög­reglunni á Suður­nesjum.

Reyndist þar vera á ferðinni er­lendur ferða­maður og mældist bíll hennar á 122 kíló­metra hraða þar sem há­marks­hraði er níu­tíu kíló­metrar. Blástur í á­fengis­mæli renndi stoðum undir að við­komandi hefði neytt á­fengis og var hún því hand­tekin og færð á lög­reglu­stöð.

Þá voru nokkrir öku­menn teknir úr um­ferð vegna gruns um fíkni­efna­akstur. Tveir þeirra reyndust sviptir öku­réttindum ævi­langt. Annar þeirra, kona á fer­tugs­aldri, reyndi að villa á sér heimildir með því að gefa upp kenni­tölu og nafn annars ein­stak­lings en viður­kenndi svo á endanum að þær upp­lýsingar til­heyrðu systur hennar.

Enn fremur voru höfð af­skipti af öku­manni sem svaf ölvunar­svefni undir stýri í bíl sínum. Í far­þega­sæti við hlið hans fundu lög­reglu­menn tveggja lítra gos­flösku með landa en lítið var eftir í henni. Við­komandi var færður á lög­reglu­stöð þar sem sýna­tökur bentu til þess að hann hefði neytt kanna­bis­efnis.

Skráningar­númer voru svo fjar­lægð af nokkrum bif­reiðum sem vorur ó­tryggðar eða ó­skoðaðar.