„Þetta hefur verið áhugamálið okkar undanfarin fimm ár,“ segir Norðmaðurinn Yvonne Olsen Hagesether í samtali við Fréttablaðið. Hún er hér á Íslandi í rúmlega þriggja vikna ferð ásamt eiginmanni sínum, Steinari Hagesether, þar sem markmiðið er að kynna sér og þrífa strendur landsins.

Þau hjónin giftu sig nýlega og ákváðu að fara í brúðkaupsferð til Íslands. Þau höfðu komið hingað í stutta ferð áður og ákváðu við þá heimsókn að koma hingað í lengri ferð. „Við söfnuðum okkur fyrir þessari ferð; notuðum allt spariféð okkar og það sem við fengum í brúðkaupsgjöf,“ segir Yvonne um aðdragandann.

Yvonne og Steinar hafa undanfarin fimm ár hreinsað strendur við Óslóarfjörð og eru hluti af samtökum sem heita Keep Norway Beautiful. Áður en þau hjónin komu til Íslands auglýstu þau eftir ströndum sem þurfa á hreinsun að halda í Facebook-hópnum Plokk á Íslandi. „Það væri frábært að fá ábendingar eða GPS-hnit eða að leggja ykkur lið,“ sagði hún meðal annars í færslunni.

Þua Yvonne og Steinar komu til landsins á fimmtudaginn og voru í Vestmannaeyjum þegar Fréttablaðið náði tali af þeim. Þau hafa skoðað hefðbundna staði á borð við Kerið og Seljalandsfoss en líka gengið fjörur. Þau gengu um Selatanga, sem eru á milli Krýsuvíkur og Grindavíkur, og fengu þar ágæta innsýn í það rusl sem finna má í fjörum landsins. „Guð minn góður. Það var svo mikið rusl,“ segir hún um þá upplifun. Hún segir að það hafi komið þeim á óvart að ruslið tengdist að langmestu leyti útgerð. Í Noregi sé sú ekki raunin. „Það var ótrúlega mikið af veiðarfærum,“ segir hún. Þau hafi tekið upp sprautur og annað rusl sem þau töldu að gæti verið hættulegt – það geri þau alltaf.

Plastrusl í fjörunni við Seltanga.
Mynd/Yvonne Olsen Hagesether

Ferðinni er frá Vestmannaeyjum heitið austur á bóginn. Þau ætla að stopp í Vík, á Austfjörðum og halda svo norður. Þar verða áfangastaðirnir Heimskautagerðið við Raufarhöfn, Kópasker og Akureyri, svo dæmi séu tekin. Hún segist vonast til að komast í samband við fólk á þessum stöðum, sem frætt geti þau um það rusl sem rekur á þeirra fjörur og sýnt þeim heppilega staði til skoðunar og hreinsunar.

Þann 8. júní er alþjóðlegur strandhreinsunardagur. Það verður jafnframt síðasti dagur brúðkaupsferðarinnar. Þau hafa sett stefnuna á að hreinsa strendur á Reykjanesi þann dag, í félagi við Bláa herinn, sem hefur verið í fararbroddi strandhreinsunar á Íslandi í áraraðir.

Yvonne hlær þegar blaðamaður bendir á að það sé sjaldgæft að fá hingað ferðamenn sem hafa það að markmiði hreinsa upp ruslið okkar. Hún segir að áhuginn hafi kviknað fyrir nokkrum árum og að þau hafi lært mikið á þessum fimm árum sem liðin eru frá því þau fóru að hreinsa strandir við Noreg. Hér sé einnig af nægu að taka; sérstaklega þegar kemur að gömlum netum og öðrum veiðarfærum.

Þau hjónin hafa þrátt fyrir ruslið heillast af landinu. „Landið er guðdómlega fallegt. Þið eruð svo heppin að búa hér,“ segir hún um Ísland.

Sígarettustubbar sem þau hjónin tóku upp á förnum vegi. Þau tóku upp 70 slíka við Kerið og 20 í Reykjadal.
Mynd/Yvonne Olsen Hagesether