Nærri þúsund manns höfðu mætt í brúðkaupsveislu í Kabúl, í Afganistan, í gær til að halda upp á hjónaband vina sinna. Veislan breyttist þó fljótlega í martröð þegar sjálfsmorðssprengjumaður varð til þess að 63 gestir létust og nærri 200 særðust í stórri sprengingu.

Ríki Íslam hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni og tilgreint árásarmanninn sem liðsmann þeirra frá Pakistan.

Forseti Afganistan hefur fordæmt árásina en hann vildi meina að Talíbanar stæðu að baki sprengjunnar. Talíbanar hafa neitað sök og fordæma einnig árásina sem hryðjuverk.

Mun aldrei líta glaðan dag

Brúðguminn, Mirwais, sem gifti sig í gær, ræddi við fjölmiðla um daginn sem átti að vera hamingjuríkasti dagur lífs hans. „Fjölskylda mín og brúður eru í áfalli, þau koma ekki upp orði.“ Hann segir brúði sína einnig falla ítrekað í yfirlið. „Ég missti bróður minn, vini mína og fjölskyldumeðlimi.“ Hann lýsti því síðan yfir að hann myndi aldrei aftur finna fyrir hamingju.

Jarðafarir í kjölfar árásarinnar.
Mynd/Reuters
SJúkrahús fylltust fljótt af fórnarlömbum árásanna.
Mynd/Reuters
Brúðkaupsgestir syrgðu ættingja sína á spítalanum.
Mynd/EPA