Upplýsingafulltrúi lögreglu hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna brottflutnings hælisleitenda frá landinu í gærnótt. Þar kemur fram að fimmtán einstaklingum hafi verið fylgt frá Íslandi til Grikklands klukkan fimm í morgun. Staðið hafi til að flytja 28 manns, en þrettán þeirra hafi ekki fundist þegar þeirra var leitað.
Í tilkynningunni segir að aðgerðin hafi verið í skipulagningu í rúman mánuð, og að notast hafi verið við leiguflugvél.
Þá er því haldið fram að ef einstaklingar sem stendur til að flytja sé metið ósamvinnuþýtt eða hættulegt hafi „lögregla valdheimildir til að tryggja að lögreglufylgd nái fram að ganga og til að tryggja öryggi viðkomandi og almennings í framkvæmdinni.“ Auk þess segir að valdheimildum sem þessum sé ekki beitt nema nauðsyn þyki til.
Mál hælisleitendanna var áberandi í fjölmiðlum í gærkvöldi. Meðal annars vegna þess að þeir voru handteknir og settir í gæsluvarðhald fram að brottflutningunum. Sérstaklega vakti athygli mál ungra kvenna, sem virðast hafa verði handteknar á leið úr skólanum, og síðan mál manns sem glímir við fötlun.
„Rétt er að taka fram að fötluðum einstaklingi, sem þarf að notast við hjólastól, var fylgt úr landi og fór hjólastóll með honum á áfangastað. Þá voru engin börn í fluginu í morgun og sem stendur eru engin börn á verkbeiðnalista stoðdeildar á leið til Grikklands.“ Segir í yfirlýsingu lögreglunnar.
Claudia Ashanie Wilson, lögmaður fólksins, sagði í samtali við Fréttablaðið í gærkvöld að hún byggist við því að þau myndu enda á götunni á Grikklandi. Þá hefur hún sérstakar áhyggur af manninum, vegna þess að ólíklegt sé að hann muni fá heilbrigðisþjónustuna sem hann þarf á að halda í Grikklandi.
Í tilkynningu lögreglunnar segir að mál allir einstaklingarnir, sem fluttir voru úr landi í gær, hafi verið komin með endanlega stöðu sinna mála hjá Útlendingastofnun og verið gert að yfirgefa landið. Þá hafi öllum verið gefinn kostur á að yfirgefa landið sjálf og án lögreglufylgdar áður en til fylgdarinnar kom.
Ekki hefur náðst í ríkislögreglustjóra, né dómsmálaráðherra vegna málsins.