Rauði krossinn segist harma að ekki hafi verið staldrað við þegar albanskri fjöl­skyldu var vísað úr landi fyrr í vikunni. Frétta­blaðið greindi frá því á þriðju­daginn að konu sem gengin var átta mánuði á leið, eigin­manni hennar og tveggja ára barni hafi verið vísað úr landi þrátt fyrir vott­orð þar sem mælt var gegn því að konunni væri vísað úr landi.

Í til­kynningu Rauða krossins kemur fram að brott­vísun fjöl­skyldunnar hefði ekki átt að fara fram á þessum tíma­punkti svo að lífi móðurinnar og barnsins væri ekki stefnt í hættu en ferða­lag fjöl­skyldunnar tók ní­tján klukku­tíma. „Brott­vísunin var í and­stöðu við ráð­leggingar heilsu­gæslunnar á höfuð­borgar­svæðinu um að þungaðar konur í á­hættu­hópi fari ekki í flug eftir 32. viku með­göngu.“

Face­book-síða sam­takanna No Bor­ders Iceland greindi fyrst frá málinu á mánu­dags­kvöldinu en þar kom fram að lög­regla hafi komið í lokað úr­ræði Út­lendinga­stofnunar og ætlað að hand­taka fjöl­skylduna sem beið eftir svari frá kæru­nefnd Út­lendinga­mála hvað varðaði um­sókn þeirra um dvöl á Ís­landi.

Segja nauð­syn­legt að skoða verk­lag

„Með­ferð á fjöl­skyldunni var að mati Rauða krossins ekki í sam­ræmi við mark­mið laganna um mann­úð, burt­séð frá því hvort verk­lag sem þetta hafi verið við­haft áður og Út­lendinga­stofnun telji sig hafa farið eftir öllum reglum,“ segir í til­kynningunni en sam­kvæmt annarri grein laga um út­lendinga er mark­miðið meðal annars að tryggja mann­úð­lega með­ferð stjórn­valda í mál­efnum út­lendinga.

„Rauði krossinn telur ekki for­svaran­legt að túlkun Út­lendinga­stofnunar eða ríkis­lög­reglu­stjóra geti ráðið úr­slitum um hvort að brott­flutningur fer fram eða ekki þegar heil­brigðis­gögn taka ekki af öll tví­mæli um á­stand við­komandi eða eru ekki nógu skýr,“ segir í til­kynningunni og tekið fram að verk­lag þurfi að laga í þessum mála­flokki.

Land­læknir hefur nú boðað að skoða skuli verk­lagið og fara yfir gildandi reglur með Út­lendinga­stofnun. Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir dóms­mála­ráð­herra tjáði sig um málið í gær þar sem hún fagnaði boði Land­læknis og sagði nauð­syn­legt að meta hvort þurfi að breyta reglum eða verk­lagi í ljósi málsins.