Fyrirhugaðri brottvísun afgönsku feðganna Asadullah, Mahdi og Al Sarwar úr landi hefur verið frestað tímabundið. Annar drengjanna er í slæmu andlegu ástandi og ákveðið var að bíða með að vísa feðgunum af landi brott eftir að geðlæknir staðfesti að drengurinn hefði fengið taugaáfall.
Þetta kemur fram á Facebook-síðu No Borders Iceland. Fréttablaðið hefur fjallað ítarlega um mál feðganna. Drengirnir tveir eru átta og tíu ára og hafa verið hér með föður sínum í ellefu mánuði. Til stóð að þeim yrði vísað úr landi í nótt.
„Brottvísuninni hefur verið frestað tímabundið eftir að geðlæknir á bráðamóttökubarna sagði stoðdeildarlögreglumanni að ekki væri mögulegt að brottvísa barni sem sé svo alvarlega þjakað af kvíða. Auðvitað þurfti að bíða þar til geðlæknir staðfestir að 10 ára barn sé komið í taugaáfall áður en útlendingayfirvöld hlusta. Og þó hefur engu verið breytt, einungis frestað,“ segir á Facebook-síðu No Borders.
„Vitnisburður læknisins er gífurlega mikilvægur, en fyrir utan það fékk drengurinn litla aðstoð og benti geðlæknir landspítalans á að heimsækja áfallateymi Rauða Krossins í fyrramálið.
Sálrænn stuðningur fyrir börn á flótta er ábótavant hér á landi, en yfirvofandi brottvísun er óvissa sem ekkert barn ætti að þurfa að eiga yfir höfði sér,“ segir enn fremur.
Ekki hafa fengist upplýsingar um hvenær feðgunum verður vísað aftur til Grikklands þar sem þeir sóttu fyrst um vernd. Asadullah sagði í samtali við Fréttablaðið um helgina að þessi ákvörðun stjórnvalda um að senda þá af landi brott sé mikil vonbrigði. Synir hans vilji ekki fara og óttist þær aðstæður sem bíði þeirra í Grikklandi.
„Strákarnir eru stressaðir. Frá því að lögreglan kom heim hafa þeir ekki viljað fara út. Þeir vilja ekkert borða og sofa allan daginn. Þeir vilja ekki leika sér því þeir hafa áhyggjur af brottvísuninni,“ sagði Asadullah.