Fyrir­hugaðri brott­vísun af­gönsku feðganna Asa­dullah, Mahdi og Al Sarwar úr landi hefur verið frestað tíma­bundið. Annar drengjanna er í slæmu and­legu á­standi og á­kveðið var að bíða með að vísa feðgunum af landi brott eftir að geð­læknir stað­festi að drengurinn hefði fengið tauga­á­fall.

Þetta kemur fram á Face­book-síðu No Bor­ders Iceland. Frétta­blaðið hefur fjallað ítar­lega um mál feðganna. Drengirnir tveir eru átta og tíu ára og hafa verið hér með föður sínum í ellefu mánuði. Til stóð að þeim yrði vísað úr landi í nótt.

„Brott­vísuninni hefur verið frestað tíma­bundið eftir að geð­læknir á bráða­mót­töku­barna sagði stoð­deildar­lög­reglu­manni að ekki væri mögu­legt að brott­vísa barni sem sé svo al­var­lega þjakað af kvíða. Auð­vitað þurfti að bíða þar til geð­læknir stað­festir að 10 ára barn sé komið í tauga­á­fall áður en út­lendinga­yfir­völd hlusta. Og þó hefur engu verið breytt, einungis frestað,“ segir á Face­book-síðu No Bor­ders.

„Vitnis­burður læknisins er gífur­lega mikil­vægur, en fyrir utan það fékk drengurinn litla að­stoð og benti geð­læknir land­spítalans á að heim­sækja á­falla­t­eymi Rauða Krossins í fyrra­málið.
Sál­rænn stuðningur fyrir börn á flótta er á­bóta­vant hér á landi, en yfir­vofandi brott­vísun er ó­vissa sem ekkert barn ætti að þurfa að eiga yfir höfði sér,“ segir enn fremur.

Ekki hafa fengist upp­lýsingar um hve­nær feðgunum verður vísað aftur til Grikk­lands þar sem þeir sóttu fyrst um vernd. Asa­dullah sagði í sam­tali við Frétta­blaðið um helgina að þessi á­kvörðun stjórn­valda um að senda þá af landi brott sé mikil von­brigði. Synir hans vilji ekki fara og óttist þær að­stæður sem bíði þeirra í Grikk­landi.

„Strákarnir eru stressaðir. Frá því að lög­reglan kom heim hafa þeir ekki viljað fara út. Þeir vilja ekkert borða og sofa allan daginn. Þeir vilja ekki leika sér því þeir hafa á­hyggjur af brott­vísuninni,“ sagði Asa­dullah.

Asadollah og synir hans tveir (9 og 10 ára) eru nú staddir á bráðamóttöku barnaspítala Hringsins, en annar sonurinn er í...

Posted by No Borders Iceland on Sunday, June 30, 2019