„Já, ég ánægð með að Hjörleifi [Hallgrímssyni] hafi verið vikið úr flokknum, þessi maður hefur ekkert að gera í þessum flokki eða öðrum flokkum. Maðurinn sem slíkur er ekki alslæmur, hann býr yfir ákveðinni kunnáttu, en hegðun hans er ekki í lagi, framkoma og samskipti hans við fólk eru ekki ásættanleg,“ segir Hannesína Scheving, ein kvennanna þriggja í Flokki fólksins á Akureyri.

Hannesína er í hópi þriggja kvenna sem báru Hjörleif og fleiri karla þungum sökum nýverið sem þolendur ofbeldis. Oddviti listans, Brynjólfur Ingvarsson, fyrrum geðlæknir og bæjarfulltrúi eftir kosningasigur í vor, og Jón Hjaltason, sagnfræðingur sem skipaði þriðja sætið og situr í ýmsum nefndum, ætla að hætta í Flokki fólksins eftir inngrip flokksforystunnar. Þeir starfa eftirleiðis sem óháðir í bæjarstjórn Akureyrar í óþökk flokksforystunnar.

Jakob Frímann Magnússon, þingmaður Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi, vill ekki tjá sig um hvort rétt hafi verið að víkja Hjörleifi, „guðföður listans“ að eigin sögn og kosningastjóra úr flokknum.

„Ég er á leiðinni norður í kjördæmaviku. Ég ætla að reyna að lesa stöðuna og vona það besta,“ segir Jakob Frímann. „Ég vona að það versta sé yfirstaðið.“

Eftir blaðamannafund kvennanna um óásættanlega framkomu karlanna þriggja, einkum Hjörleifs, brást Hjörleifur við í Fréttablaðinu með því að kalla konurnar „svikakvendi“. Þau ummæli virðast endanlega hafa leitt til þess að Hjörleifi var vikið úr flokknum.

Jakob Frímann Magnússon, þingmaður Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, verkefnisstjóri hjá Stígamótum, segir málið til marks um breytt viðhorf gagnvart kynbundu ofbeldi og kynferðislegri áreitni. Gripið sé til aðgerða í stað þess að stjórn flokksins láti málið óáreitt.

„Það hefur verið ákveðin tilhneiging hjá ýmsum stofnunum og fyrirtækjum að segja að lítið sé hægt að aðhafast fyrr en mál hafi farið í gegnum réttarkerfið. Þetta mál er gott dæmi um að það er ekki alltaf nauðsynlegt. Það þarf ekki alltaf niðurstöðu í réttarkerfinu um sekt eða sakleysi,“ segir Steinunn.

Hún segir að konurnar hafi verið teknar trúanlegar og staðið með þeim.

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, verkefnisstjóri hjá Stígamótum.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Það er nauðsynlegt ef við sem samfélag ætlum að taka ábyrgð á kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi. Svona mál verða ekki bara leyst milli þolanda og geranda heldur verður allt samfélagið að rísa upp og taka ábyrgð.“

Verkefnisstýra Stígamóta segir að margir hafi opnað augun og áttað sig á að við höfum öll hlutverki að gegna í því að standa með þolendum. Bregðast við ósæmilegri hegðun með því að kalla gerendur til ábyrgðar.

„Mér finnst þessar konur sýna hugrekki, seiglu og staðfestu. Þær sýna hver annarri samstöðu. En við þurfum líka að muna að margir þolendur standa einir og við þurfum að standa með þeim líka,“ segir Gyða um akureyrsku konurnar sem héldu blaðamannafundinn.