Kristinn Sigurjónsson, lektor við tækni-og verkfræðideild HR, segir í samtali við Fréttablaðið að honum hafi verið „mokað út“ úr skólanum í kjölfar fréttar DV af ummælum sem hann lét falla í lokaða Facebook-hópnum, Karlmennskuspjallið.

„Ég er bara búinn að missa vinnuna,“ segir Kristinn og bætir við að hann telji ljóst að kennsla í námskeiðum hans sé í uppnámi. „Það er ótrúlegt að þeir geri þetta á miðju misseri. Ég er búinn að leggja fyrir skyndipróf sem nemendur eru búnir að taka en ég er ekki búinn að gefa einkunnir. Ég veit ekki hvernig á að leysa þetta.“

Aðspurður segist hann í augnablikinu ekki vita hvort hann muni berjast gegn uppsögninni og jafnvel leita réttar síns. „Ég er rétt í þessu bara að sleikja sárin og veit ekki alveg hvað ég geri en ég er 64 ára gamall verkfræðingur og maður dettur ekkert í aðra vinnu.“

Klámbrandari verður kynferðisofbeldi

DV birti eftirfarandi ummæli Kristins af Karlmennskuspjallinu á Facebook og í kjölfarið var hann látinn fara:

„Ég er svo hjartanlega sammála, það á að aðgreina vinnustaði karla og kvenna. Vandinn er bara að konur reyna alltaf að troða sér þar sem karlmenn vinna, og um leið og þær eru komnar inn, þá byrja þær að eyðileggja hann, því allir karlmennirnir eiga þá að fara að tala, hugsa og hegða sér eins og kerlingar, allt annað er áreiti og ef sagður en neðan beltisbrandari, svo ég nefni ekki klámbrandari, þá er það kynferðisofbeldi.“

Hann segir uppsögnina vera „algert frumhlaup vegna þess að ég geri í sjálfu sér ekkert af mér. Ég er að tjá mig almennt í lokuðum hópi og skólinn á náttúrlega að virða skoðana- og tjáningarfrelsi manna. Ég er ekkert að sverta skólann eitt né neitt,“ segir hann og bendir á að hann telji þessi orð sín tekin úr öllu samhengi þegar þau eru birt ein og sér.

„Það sem hafði komið þarna á undan var spurningin um hvort karlmenn væru komnir í þá stöðu að þurfa að sanna sakleysi sitt og þá sting ég upp á aðgreindum vinnustöðum. Ég er bara að tala um það að þegar menn eru komnir í þessa stöðu að þurfa að sanna sakleysi sitt þá er spurning hvort við eigum ekki bara að hafa Hjallastefnuna á vinnustöðum fullorða fólksins,“ segir Kristinn.

Misbýður þröngum hópi

Nú starfar fjöldi kvenna við HR. Hefur þér liðið eitthvað illa að vinna innan um konur?

„Nei, nei. Ég hef átt mjög gott samstarf við allt mitt samstarfsfólk en ég hafði orðið var við það innan mjög þröngs hóps kvenna að þeim líkaði illa það sem ég hef verið að skrifa svona almennt við fréttir á kommenntakerfum í opnu rými.

Mér hefur mislíkað hvernig nánast allt sem karlmenn segja er rakkað ofan í svaðið,“ segir hann og nefnir tálmunarmál sem dæmi.

„Ég hef verið í fulltrúaráði Félags ábyrgra foreldra og þannig byrjaði ég að skoða tálmunarofbeldi og gagnrýna bæði tálmanir og fjölmiðla fyrir að taka ekki á málinu og hversu víðtækt ofbeldi getur verið.

Ég rakka aldrei niður fólk og bendi bara á hversu ofbeldi er víðtækt og að tálmanir geti valdið börnum varanlegum skaða andlega og líkamlega. Einhverjum konum mislíkar þetta mjög mikið og ég hef kannski verið mjög hvassyrtur. En það er bara vegna þöggunar fjölmiða á þessu. Mér finnst ég stundum vera hrópandinn í eyðimörkinni vegna þess að það þorir enginn að taka á þessu,“ segir Kristinn.

„Ég þorði því vegna þess að ég hélt að minn vinnuveitandi væri ekki að skipta sér af þessu, í trausti þess að háskóli eigi að virða tjáningarfrelsi og skoðanafrelsi.“

Kristinn segist ekki hafa átt von á þessum viðbrögðum skólans. „Ég gerði mér enga grein fyrir því og taldi að ef þeim myndi mislíka orðfærið eitthvað myndu þeir hafa samband við mig. Það hefði ekki verið neitt mál að dempa þetta.“

Hvorki náðist í rektor Háskólans í Reykjavík né upplýsingafulltrúa skólans við vinnslu fréttarinnar.