Brott­hvarf á fram­halds­skóla­stigi hefur farið minnkandi frá árinu 2003, en fjórum árum eftir inn­ritun hafði tæp­lega þriðjungur ný­nema haustsins 2003 hætt námi án þess að út­skrifast, en tæp­lega fimmtungur ný­nema haustsins 2016.

Þá út­skrifuðust rúm­lega sextíu prósent árið 2020 af þeim 4.500 ný­nemum sem hófu nám árið 2016, en rúm­lega fimmtungur var enn í námi án þess að hafa út­skrifast.

Brott­fall hærra meðal karla en kvenna

Af ný­nemum ársins 2016 hafði tæp­lega fjórðungur karla hætt í námi án þess að út­skrifast árið 2020 og tæp­lega fimmtungur kvenna.

Brott­hvarf meðal nem­enda í starfs­námi reyndist meira en í bók­námi, en þriðji hver ný­nemi í starfs­námi árið 2016 hafði hætt námi án þess að út­skrifast fjórum árum síðar. Þá var brott­hvarf meira í skólum á lands­byggðinni en höfuð­borgar­svæðinu.

Tæp­lega fimm­tíu prósent brott­fall meðal inn­flytj­enda

Þegar kemur að inn­flytj­endum höfðu tæp­lega helmingur þeirra sem hófu nám í dag­skóla á fram­halds­skóla­stigi haustið 2016 hætt námi án þess að út­skrifast fjórum árum seinna. Það er minnsta brott­hvarf þess hóps frá því Hag­stofan hóf mælingar.

Hlut­fallið er þó tals­vert hærra en brott­hvarf meðal ný­nema með ís­lenskan bak­grunn, en tæp­lega fimmtungur þess hóps hætti námi án þess að út­skrifast fjórum árum seinna.

Fjórum árum eftir inn­ritun hafði tæplega þriðjungur ný­nema haustsins 2003 hætt námi án þess að út­skrifast en fimmtungur ný­nema haustsins 2016.
Skjáskot/Hagstofan