Fréttakona bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN hágrét í beinni útsendingu í gærkvöldi þar sem hún tók viðtal við Juliönu Jimenez Sesma í Kaliforníu. Sesma missti bæði móður sína og stjúpföður úr COVID-19 sjúkdómnum. Viðtalið má horfa á neðst í fréttinni.
Í viðtalinu lýsir Sesma því hvernig móðir hennar og stjúpfaðir létust með 11 daga millibili. Fjölskyldan hennar neyddist til að halda jarðarför þeirra úti á bílastæði. Spurði fréttakonan hana að því hversu margir í fjölskyldunni hefðu smitast og ekki stóð á svörum: „Við öll.“
„Ekki láta þetta gerast við ykkur,“ ssagði Sesma. „Ef þið elskið ástvini ykkar í alvöru, ekki láta þetta gerast við ykkur. Haldið áfram að taka öllu með gát. Gerið í því ef þið þurfið,“ sagði hún. Fleiri en 375 þúsund manns hafa látið lífið vegna veirunnar í Bandaríkjunum einum.
Það var á þessari stundu sem Sidner brotnaði saman. Hún baðst afsökunar á því við fréttamenn í stúdíói CNN sem sögðu það algjöran óþarfi og þökkuðu hennar fyrir fréttaflutning hennar.
„Þetta er bara ekki í lagi,“ sagði Sidner snöktandi. „Það er ekki í lagi hvað við erum að gera hvort öðru. Þessar fjölskyldur ættu ekki að vera að upplifa þetta. Engin fjölskylda ætti að upplifa þetta.“