Frétta­kona banda­rísku sjón­varps­stöðvarinnar CNN há­grét í beinni út­sendingu í gær­kvöldi þar sem hún tók við­tal við Juli­önu Ji­menez Sesma í Kali­forníu. Sesma missti bæði móður sína og stjúp­föður úr CO­VID-19 sjúk­dómnum. Við­talið má horfa á neðst í fréttinni.

Í við­talinu lýsir Sesma því hvernig móðir hennar og stjúp­faðir létust með 11 daga milli­bili. Fjöl­skyldan hennar neyddist til að halda jarðar­för þeirra úti á bíla­stæði. Spurði frétta­konan hana að því hversu margir í fjöl­skyldunni hefðu smitast og ekki stóð á svörum: „Við öll.“

„Ekki láta þetta gerast við ykkur,“ ssagði Sesma. „Ef þið elskið ást­vini ykkar í al­vöru, ekki láta þetta gerast við ykkur. Haldið á­fram að taka öllu með gát. Gerið í því ef þið þurfið,“ sagði hún. Fleiri en 375 þúsund manns hafa látið lífið vegna veirunnar í Banda­ríkjunum einum.

Það var á þessari stundu sem Sidner brotnaði saman. Hún baðst af­sökunar á því við frétta­menn í stúdíói CNN sem sögðu það al­gjöran ó­þarfi og þökkuðu hennar fyrir frétta­flutning hennar.

„Þetta er bara ekki í lagi,“ sagði Sidner snöktandi. „Það er ekki í lagi hvað við erum að gera hvort öðru. Þessar fjöl­skyldur ættu ekki að vera að upp­lifa þetta. Engin fjöl­skylda ætti að upp­lifa þetta.“