Brotist var inn í verslunina Attikk sem staðsett er á Laugavegi 90 klukkan 06:19 nú í morgun. Þjófarnir brutust inn í gegnum aðalhurð verslunarinnar og fór þá þjófavarnakerfi í gang samstundis.

Í myndbandi sem öryggismyndavélakerfi verslunarinnar náði sjást tveir einstaklingar brjóta sér leið inn í búðina og valda miklum skemmdum á læstum skápum í versluninni. Þjófarnir höfðu með sér talsvert magn af verðmætum.

Starfsmenn vinna nú að því að þrífa verslunina og fara yfir þær vörur sem teknar voru.
Mynd/aðsend

Að sögn Ýr Guðjohnsen, eiganda verslunarinnar, er málið komið í rannsókn hjá lögreglu „Við vitum að það er einn aðili í haldi eins og stendur,“ segir Ýr sem nú vinnur ásamt starfsfóli sínu að því að fara yfir hvaða vörur voru teknar.

Attikk verslun selur merkjavörur frá þekktum tískumerkjum á borð við Louis Vuitton, Chanel, Gucci, Prada og mörg önnur merki en um er að ræða vörur frá þriðja aðila.

„Auðvitað verða allar vörur greiddar út, en það getur kannski tekið smá tíma varðandi tryggingar. En við munum skoða þetta allt saman mjög vel,“ segir Ýr