Brotist var inn á skrifstofu Mannlífs, gögnum eytt og tveimur tölvum stolið. Þetta staðfestir Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, í samtali við Fréttablaðið. Málið er komið á borð lögreglu.

Í gær var einnig brotist inn í bíl Reynis við Úlfarsfell en ritstjórinn telur að innbrotin séu tengd. Þetta sé ekki hefðbundinn þjófnaður heldur bein árás á starf þeirra í blaðamennsku.

Aðspurður um aðbúnaðinn segir Reynir: „Tvær tölvur eru horfnar frá skrifstofunni annars var gengið snyrtilega um.“

Lögreglan mætti á svæðið og tók fingraför en engar upptökur eru til af innbrotinu. Verið er að skoða slóð innbrotsþjófanna á netinu en aðilarnir eyddu gögnum í eigu Mannlífs og vefsíða fréttamiðilsins lá niðri í nokkrar klukkustundir.

Reynir skrifar á Faceboo: „Þetta var aðkoman við stæðið undir Úlfarsfelli. Brotin rúða og stolið öllu steini léttara. Hundabúr, bakpoki fullur af græjum. Ömurleg aðkoma. Lögreglan nennti ekki á staðinn.“
Mynd: Facebook

Lögmannsstofa Róberts Wessman vildi fá gögn

Mannlíf hefur undanfarið fjallað ítarlega um meinta háttsemi auðmannsins Róberts Wessman og til stóð að flytja fleiri fregnir um málið. Reynir greindi frá því nýlega á Facebook að bandarísk lögmannsstofa hafi krafið Mannlíf fyrir hönd Róberts að fjölmiðillinn afhenti þeim gögn að baki frétta þeirra um líflátshótanir hans, meint ofbeldi gegn samstarfsfólki og önnur mál sem að honum snúa.

Aðspurður hvort hann telji málið tengjast umfjöllun Mannlífs um Róbert Wessman segist Reynir ekki geta fullyrt um það en að tímasetningin sé áhugaverð.

„Ég geri ráð fyrir að þetta sé út af okkar störfum. Þetta er ekki hefðbundið innbrot með þeim skilningi að það sé farið á eftir verðmætum, heldur er gögnum eytt og vefurinn eyðilagður. Ég get ekki fullyrt að Róbert Wessman eigi hluti í máli en tímalínan segir okkur eitthvað. Það er persónulega farið að mér og bíllinn minn eyðilagður og skemmdur. Þetta er skipulagt og ekki margir sem hafa mótív til að gera þetta.“