Þann 1. desember fer fram aðal­með­ferð í máli Dobbs gegn Jack­sons Wo­men’s Health í Hæsta­rétti Bandaríkjanna, en niður­staða málsins gæti koll­varpað fimm­tíu ára gömlu dóma­fordæmi Roe v. Wade og þar með stjórnar­skrár­vörðum réttindum banda­rískra kvenna til þungunar­rofs.

Dóms­málið snýr að lög­mæti fóstur­eyðinga­laga í Mississippi frá árinu 2018 en sam­kvæmt þeim er konum ó­heimilt að fara í þungunar­rof eftir 15 vikna með­göngu. Það er um tveimur mánuðum fyrr en dóma­for­dæmið Roe v. Wade heimilar. Roe v. Wade er lík­lega þekktasta dóma­for­dæmi Banda­ríkjanna.

Málið fór í gegnum lægri dóm­stig Banda­ríkjanna við upp­haf áttunda ára­tugarins og kvað Hæsti­réttur upp sögu­legan dóm sinn árið 1973. Þó að margir þekki dóms­málið, bæði í Banda­ríkjunum og hér heima, þekkja færri konurnar á bak við það. Ó­nafn­greinda þungaða konan í málinu var hin 21 árs gamla Norma McCor­vey sem bar þá sitt þriðja barn undir belti. Þegar hún leitaði til læknis í von um að komast í þungunar­rof var henni vísað frá, enda var það með öllu bannað í Texas­ríki á þeim tíma.

Norma Leah McCorvey í myndatöku fyrir dagblað í Dallas árið 1985.
Ljósmynd/Getty Images

Tvær ungar konur, ný­út­skrifaðar úr laga­deild Texas­há­skóla í Austin, á­kváðu að taka mál hennar að sér. Þær voru hin 27 ára Linda Cof­fe og hin 24 ára Sarah Weddington og fóru þær með málið alla leið fyrir Hæsta­rétt Banda­ríkjanna. Saga Normu er jafn á­huga­verð og dóms­málið sjálft, en hún var nafn­laus á öllum dóms­skjölum.

Þegar hún steig fram skömmu eftir niður­stöðu dómsins var ljóst að hún var ekki feminíska á­trúnaðar­goðið sem margir vonuðust eftir. Norma átti hræði­lega æsku, var breysk manneskja og hafði ýmsa galla í fari sínu.

Það var brotið í­trekað á henni frá blautu barns­beini og reyndi fólk að not­færa sér hana nær alla ævi hennar. Fyrst voru það illa inn­rættir karl­menn, síðan konur með göfug mark­mið og síðast menn sem töldu sig tala fyrir guð.

Linda Cof­fee í Dallas Texas að undir­búa Roe v. Wade málið árið 1972. Sarah Weddington árið 1978. Hún var 24 ára gömul og ný­út­skrifuð er hún tók að sér mál McCor­vey. Hún er meðal yngstu lög­manna til að flytja mál fyrir Hæsta­rétti.
Fréttablaðið/samsett/Getty Images

McCor­vey fæddist sem Norma Nel­son árið 1947 í smá­bæ í Lou­isiana í Banda­ríkjunum. Að hennar sögn vildi móðir hennar, Mary, fara í þungunar­rof þegar hún gekk með hana. Fjöl­skyldan var fá­tæk og móðir hennar of­beldis­fullur alkó­hól­isti sem beitti dóttur sína í­trekað of­beldi. Olin, faðir hennar, var sjón­varps­við­gerðar­maður og að sögn Normu var hann ljúfur maður en fjar­lægur. Hann yfir­gaf fjöl­skylduna þegar Norma var 13 ára.

Þegar Norma var ung fluttist fjöl­skyldan til Texas og varði hún meiri­hluta upp­eldis­áranna þar. Sam­kvæmt The New York Times var Norma grannur ung­lingur, alltaf á iði og kölluðu vin­konur hennar hana Pixi­e sem mætti þýða sem álfur eða púki. Normu kom illa saman við móður sína og rifust þær oft heiftar­lega sem olli því að Norma reyndi í­trekað að strjúka að heiman.

Hún komst fyrst í kast við lögin þegar hún var tíu ára er hún stal peningum á bensín­stöð þar sem hún vann við að þrífa bíl­rúður. Hún notaði peningana til að taka rútu til Okla­homa með vini sínum en lög­reglan hafði upp á þeim og sendi þau aftur til Texas. Hún var í kjöl­farið send í kaþólskan heima­vistar­skóla.

Í sjálfs­ævi­sögu hennar, I am Roe, greinir frá því að hún hafi verið kyn­ferðis­lega mis­notuð í skólanum. Næst var hún send í ríkis­rekið Brotin kona sem breytti heiminum betrunar­hús fyrir börn með hegðunar­vanda. Hún lauk ekki níunda bekk, en þegar hún yfir­gaf skólann var hún send til að búa hjá fjöl­skyldu­vini í þrjár og hálfa viku.

Að hennar sögn nauðgaði fjöl­skyldu­vinurinn henni á hverju kvöldi, áður en hún flutti aftur til Dallas. Of­beldið braut Normu niður and­lega og segir hún sjálf frá því að hún hafi upp­lifað mikla reiði gagn­vart sam­fé­laginu

Hjónaband og heimilisofbeldi

Fimm­tán ára gömul fékk hún starf sem þjónustu­stúlka á hjóla­skautum á ham­borgara­stað í Dallas. Kvöld eitt eftir vinnu ók maður fram­hjá henni á nýjum Ford, skrúfaði niður bíl­rúðuna og kallaði klám­fengin orð í átt til hennar. Hún svaraði honum fullum hálsi en maðurinn sem um ræddi var Woo­dy McCor­vey, 21 árs gamall málm­iðnaðar­maður. Svo fór að Woo­dy og Norma fóru að hittast og gengu í hjóna­band eftir stutt sam­band. Hveiti­brauðs­dagarnir voru varla liðnir þegar Woo­dy fór að beita Normu of­beldi.

Þegar Norma varð þunguð af sínu fyrsta barni reiddist Woo­dy snögg­lega og barði hana illa. Lög­regla var kölluð til og var Norma með­vitundar­laus þegar komið var á vett­vang. Í kjöl­farið flutti hún aftur heim til móður sinnar. Hún var ný­orðin sex­tán ára, gift, ó­létt, barin og brotin.

Skömmu síðar kom fyrsta barn Normu í heiminn, en móðir hennar sá að mestu leyti um upp­eldið. Í bók sinni I am Roe segir Norma að móðir hennar hafi „rænt“ barninu af henni með því að plata hana til að skrifa undir ætt­leiðingar­pappíra á þeim for­sendum að um trygginga­skjöl væri að ræða. Í við­tali við Vanity Fair árið 2013 þver­tók móðir hennar fyrir þetta og sagði þær hafa sam­mælst um að hún myndi ala upp barnið þar sem Norma var ung og í neyslu á þessum tíma.

Norma með fyrstu dóttur sinni Cheryl sem er 23 ára þegar myndin er tekin og barnabarni sínu.
Ljósmynd/Getty Images

Ólétt og örvæntingafull í Dallas

Norma varð þunguð að nýju og gaf barnið til ætt­leiðingar. Þegar hún varð síðan þunguð í þriðja skiptið starfaði hún sem aug­lýsinga­kallari fyrir farand­tívolí frá Lou­isana. Farand­tívolíið var statt í Flórída þegar hún komst að því að hún væri ó­létt. Á þessum tíma­punkti var hún upp­gefin og hafði ekki þrek til að fara í gegnum enn aðra með­göngu, fæðingu og gefa annað barn til ætt­leiðingar. Hún vildi reyna að komast hjá því and­lega og líkam­legu á­lagi sem því fylgdi.

Í ör­væntingu sinni safnaði Norma saman spari­fé sínu og keypti rútu­miða aftur til Dallas í von um að geta fundið lausn. Á bar í Dallas sagði vin­kona hennar frá því að læknar gætu fram­kvæmt að­gerð til að binda enda á með­gönguna. Hér verður að hafa í huga að menningar­stríðið um þungunar­rof var ekki hafið og var lítið sem ekkert rætt um slíkar að­gerðir. Á sjöunda ára­tugnum voru lang­flestir Banda­ríkja­menn sam­mála því að fóstur­eyðingar ættu að vera lög­legar í ein­hverri mynd.

Lög sem bönnuðu fóstur­eyðingar voru á­litin ó­mann­úð­leg, enda áttu konur það til að deyja er heima­fóstur­eyðingar voru reyndar.
Ríki Banda­ríkjanna voru hægt og ró­lega að „af­glæpa­væða“ fóstur­eyðingar. Það kemur lík­lega mörgum á ó­vart í dag, en ríkis­stjórar úr röðum Repúblikana voru í farar­broddi í þeim efnum.

Ronald Reagan, á­hrifa­mesti í­halds­maður Banda­ríkjanna, var ríkis­stjóri í Kali­forníu þegar fóstur­eyðingar voru lög­leiddar í ríkinu árið 1967. Einu ríki Banda­ríkjanna þar sem fóstur­eyðinga­frum­vörp náðu ekki í gegn í neinni mynd voru í norð­austur­hlutanum: Massachusetts, Maine, Connecticut og R­hode Is­land. Á­stæðan var ein­föld: kaþólikkar. Texas, þar sem Norma bjó, var hins vegar í sérf lokki. Það hafði enginn reynt að „af­glæpa­væða“ fóstur­eyðingar.

Ronald Reagan skrifaði undir frjálslynda þungunarrofslöggjöf þegar hann var ríkisstjóri. Hann skipti síðar um skoðun. Hér er hann á opnum fundi með kristnum íhaldsmönnum að tala fyrir löggjöf sem myndi banna fóstureyðingar árið 1984.
Ljósmynd/Getty Images

Í Texas fór Norma til Richard Lane, læknisins sem tók á móti fyrstu tveimur börnum hennar og sagðist vilja binda enda á með­gönguna. Hann út­skýrði að það væri ó­lög­legt að fram­kvæma fóstur­eyðingar í Texas. Hún bauðst þá til að láta hann hafa allt spari­fé sitt, sem var um 250 dalir. Hann neitaði henni að nýju en skrifaði síma­númer á miða og rétti henni. Hún hélt um stund að hann væri að vísa henni til læknis sem væri til­búinn að fram­kvæma fóstur­eyðinguna, en þegar hún hringdi í númerið svaraði lög­maður hjá ætt­leiðingar­mið­stöð í Texas. Hún skellti á.

Eftir til­raun til að fara á ó­lög­lega fóstur­eyðinga­stöð sem hafði verið lokað, hringdi Norma aftur í lög­manninn. Hann sagði henni frá tveimur ungum konum sem væru ný­út­skrifaðar úr laga­deild, Lindu Cof­fee og Söruh Weddington, og væru að leita að fóstur­eyðingar­máli sem gæti haft á­hrif á lands­lög í Banda­ríkjunum.

Norma sam­þykkti að hitta þær en viður­kenndi seinna að hún hefði ekki al­menni­lega skilið hvað þær vildu. Cof­fee og Weddington voru báðar virkir femín­istar. Cof­fee var sam­hliða námi að­stoðar­maður Söruh Hug­hes, ríkis­dómara í Texas og þekktur femín­isti. Weddington kom að málinu með reynslu úr eigin ranni, eftir að hafa þurft að ferðast til Mexíkó til að fara í fóstur­eyðingu á meðan hún var í laga­námi.

Konurnar þrjár sem allar voru á svipuðum aldri hittust á pítsu­stað í Dallas. Norma var komin nokkra mánuði á leið og þær sátu í marga klukku­tíma saman, drukku bjór og borðuðu pítsu. Sam­kvæmt Normu voru þær allar drukknar þegar hinar tvær fóru að reyna að sann­færa hana um að leyfa þeim að fara með mál hennar fyrir dóm­stóla. Norma var full­kominn sóknar­aðili fyrir málið, þrátt fyrir að hafa verið afar ó­full­kominn tals­maður fyrir kven­réttinda­hreyfinguna.

Kven­réttinda­hreyfingu Banda­ríkjanna óx einnig ás­megin á áttunda ára­tugnum.
Ljósmynd/Getty Images

„Þær vildu breyta lögunum en ég vildi bara fara í þungunarrof“

Á pappírum var hún ung kona sem vildi fara í fóstur­eyðingu, spurði lækni sinn um mögu­leikann á því en bjó því miður í ríki sem bannaði slíkar að­gerðir. „Þær vildu breyta lögunum en ég vildi bara fara í þungunarrof,“ rifjaði Norma upp í við­tali á ABC á tíunda ára­tugnum. „Þær sögðu: „Norma vilt þú hafa lög­leiddan rétt yfir eigin líkama?“ Ég sagði jú og þær sögðu að það eina sem ég þyrfti að gera væri að skrifa undir hér.“
Úr varð dóms­málið fræga Roe v. Wade, en Wade í þessu sam­hengi er Henry Wade sak­sóknari í Texas. Hæsti­réttur Banda­ríkjanna dæmdi málið Weddington og Cof­fee í vil, sjö með og tveir á móti, á grund­velli 14. greinar stjórnar­skrárinnar og réttarins til frið­helgi einka­lífs. Dómurinn segir að ríkið eigi ekkert að að­hafast í á­kvörðunum milli læknis og sjúk­lings.

Þungunar­rofs­rétturinn var þó ekki al­gildur, heldur skyldi hann vega á móti rétti ríkisins til að huga að heilsu borgaranna og ekki mætti fara í þungunar­rof eftir þriggja mánaða með­göngu. Dómurinn var ekki svo um­deildur á sínum tíma og hófst menningar­stríðið ekki fyrr en breyting varð á rétti kvenna á lands­vísu, er 46 ríki þurftu að breyta lög­gjöf sinni um þungunar­rof.

Kven­réttinda­hreyfingu Banda­ríkjanna óx einnig ás­megin á áttunda ára­tugnum og hófu kristnir í­halds­menn að reyna að hægja á ferlinu. Rétturinn til þungunar­rofs var í hringiðunni í bar­áttunni og varð Norma um tíma tákn hennar. Hún var um tíma í Kali­forníu með stjörnu­kven­réttinda­lög­manninum Gloriu All­red. Talaði á opnum fundum um réttindi kvenna og naut hylli meðal femín­ista. Bar­áttu­fundur árið 1989.

Stjörnu­lög­maðurinn og femín­istinn Gloria All­red (t.v.) var meðal þeirra sem hylltu McCor­vey sem hetju (t.h.). Á efri árum sagði McCor­vey að hún upp­lifði að elítan í kven­réttinda­hreyfingunni liti niður á sig.
Ljósmynd/Getty Images

Norma varð svo trúuð á efri árum og var sjón­varpað frá því þegar hún var skírð árið 1995. Hún skráði sig í kaþólsku kirkjuna og varð síðar tals­maður gegn réttinum til þungunar­rofs. Seinna sagði hún frá því að hún upp­lifði það að „mennta­snobbaðir femín­istar“ hefðu verið að not­færa sér hana og litið niður til hennar. Lítið var gert úr hug­myndum hennar og sagðist hún upp­lifa að þeim fyndist hún heimsk. „Þær sýndu mér aldrei virðinguna sem mér fannst ég eiga skilda,“ sagði Norma í við­talinu við ABC árið 1995.

Í sjálfs­ævi­sögu sinni segist hún hafa áttað sig á því seinna meir að Cof­fee og Weddington voru aldrei með hennar hags­muni í huga og ætluðu aldrei að hjálpa henni að rjúfa þungunina, heldur hafi þær verið að hugsa um eigin frama. Norma dó árið 2017, 69 ára gömul.

Hún fór aldrei í þungunar­rof, hún eignaðist þrjú börn. Hún var kona sem barðist í gegnum hræði­legar að­stæður og brotinni var henni skellt undir sviðs­ljósið til að vera tákn fyrir pólitískar hreyfingar í landinu. Fyrst fyrir kven­réttindi og síðar fyrir kirkjuna.

Dóms­mál hennar breytti hins vegar réttindum tug milljóna kvenna, en á 40 ára af­mæli Roe v. Wade árið 2013 höfðu 55 milljónir kvenna farið í þungunar­rof frá því að dómurinn féll. Þessi réttur verður lagður á vogar­skálarnar í Hæsta­rétti Banda­ríkjanna í byrjun desember en rétturinn er í­halds­samari nú en oft áður. Þá mun koma í ljós hvort réttur kvenna, sem byggðist á ósk brotinnar konu um þungunar­rof, verði af­numinn.

Norma McCor­vey að gegn þungurrofum fyrir framan Hæstarétt Bandaríkjanna árið 2005.
Ljósmynd/Getty Images