Ragnhildur Eik Árnadóttir, brotaþoli í nauðgunarmáli gegn Jóhannesi Tryggva Sveinbjörnssyni nuddara, segist hafa farið til hans í meðferð illa haldin af verkjum í baki eftir bílslys en hann hafi brotið á henni með því meðal annars að nudda á henni kynfærin.

Hún segir Jóhannes hafa sýnt óviðeigandi hegðun strax í fyrsta tímanum og gert athugasemdir um útlit systur hennar. Hann hafi byrjað á að nudda á henni rassinn sem henni þótti skrítið þar sem hún leitaði til hans vegna bakverkja ofarlega við herðablaðið. Hann hafi svo snert kynfæri hennar og brjóst og sagt ástæðuna til að losa um spennu. Atvik þessi áttu sér fyrir tíu árum eða í janúar 2012.

Aðalmeðferð stendur nú yfir í málinu gegn Jóhannesi í Héraðsdómi Reykjaness en hann hefur þegar verið dæmdur í sex ára fangelsi fyrir að nauðga fjórum konum.

Rann­sókn á máli Jóhannesar Tryggva hófst árið 2018. Það sama ár fjallaði Frétta­blaðið ítar­lega um málið og ræddi við Sig­rúnu Jóhanns­dóttur lög­mann og réttar­gæslu­mann nokkurra kvenna sem höfðu lagt fram kærur á hendur manninum. Eftir umfjöllun Fréttablaðsins um málið fjölgaði konunum og að sögn Sigrúnar leituðu á þriðja tug kvenna til hennar vegna meintra kynferðisbrota mannsins. Alls kærðu á annan tug kvenna Jóhannes fyrir kyn­ferðis­brot.

Lýsingar kvennanna voru flestar á þann veg að þær hefðu leitað til hans vegna stoð­kerfis­vanda­mála, við með­ferðina hefði hann snert kyn­færi þeirra og í flestum til­fellum farið með fingur inn í leg­göng þeirra eða enda­þarm.

Fraus þegar hann minntist á tantra

„Hann spyr hvort ég hafi einhvern tímann prófað tantra nudd og ég svara nei. Svo frýs ég bara. Þá byrjar hann að nudda á mér kynfærin, bæði innri og ytri barma, við snípinn, fer á milli barma og grunnt inn í leggöng. Þetta stendur yfir mjög lengi og það voru engin samskipti okkar á milli á þessum tíma,“ sagði Ragnhildur í skýrslu sinni fyrir dómi í gær.

Í lok tímans hafi Jóhannes látið út úr sér að mamma hennar fengi ekki slíkt lúxusnudd. „Hann sagði eitthvað um að njóta flæðis í mjöðm eftir þetta og varaði mig við að því að ýmsar gamlar tilfinningar gætu vaknað.“ Þá hafi Ragnhildur svarað að hún fyndi nú ekki mikinn mun á bakinu. Henni hafi þótt ljóst að hún hafi komið til að fá baknudd en ekkert annað.

„Hann sagði að þetta losaði spennu því ég væri svo „tense“ og gæti hjálpað með fullnægingar, sem var aldrei rætt.“ Í fjórða tímanum hafi hann farið strax í að nudda á henni kynfærin eftir að hún lagðist á bekkinn og stungið fingri sínum ítrekað inn í leggöngin hennar.

Hún segir upplifað vanlíðan og kvíða eftir atvikið. Hún hiki við að leita sér hjálpar vegna meiðsla, fái kvíðaköst í lokuðum rýmum og segist hafa átt erfitt með að tengja tilfinningar við kynlíf.

Móðir brotaþola kenndi sjálfri sér um

Bæði móðir og systir Ragnhildar báru vitni í héraðsdómi sem og vinkonur hennar sem hún ræddi við um meðferðartímann hjá Jóhannesi.

Móðir Ragnhildar lýsir því þegar dóttir hennar sagði henni loksins frá reynslu sinni í nuddtímunum.

„Ég ætla að biðja þig að fara aldrei aftur til hans því hann braut á mér kynferðislega," hafði móðir Ragnhildar eftir dóttur sinni.

„Mér náttúrulega leið mjög illa, því það var mér að kenna að hún fór til hans,“ bætti hún við.

Hafði áhyggjur af öðrum konum

Systir Ragnhildar segir hana hafa sagt sér fyrst frá brotunum þegar þær voru á leið til Íslands frá Boston árið 2015.

„Hún sagði mér þetta hefði verið líkara tantranuddi en sjúkrameðferð.” Það hafi svo verið síðar sem þær ræddu atvikið nánar.

„Hún hefur trúað mér fyrir því að það nagaði hana alltaf, þegar við ræddum hvort hún ætti að stíga fram, að það væru kannski einhverjar fleiri konur sem gætu lent í þessu.”

Tvær æskuvinkonur Ragnhildar segja hana hafa sagt sér frá nuddinu strax eftir fyrsta tímann. Þær hafi verið um tvítugt og ekki áttað sig á því hve alvarlegt þetta væri.

Þær hafi hálf flissað yfir þessu skrítna nuddi. Önnur þeirra tók fram þetta hefði gerst löngu fyrir allt #metoo og þær hafi ekki skilið almennilega hvað hafi gerst. „Ég brást henni algerlega sem vinkona,“ segir önnur þeirra.

Vinkonur Ragnhildar og fjölskyldumeðlimir lýstu áhrifum brotsins á líf hennar en tíu ár eru síðan atvikin áttu sér stað. En því hefur meðal annars verið lýst að málið hafi verið eins og þrumuský yfir henni. Brotin rifjist alltaf upp þegar kynferðsbrot ber á góma. Þá hafi hún veigrað sér við að leita sér aðstoðar við allskonar líkamlegum kvillum, af ótta eða kvíða gagnvart meðferðaraðilum.

Dagmar Ösp Vésteinsdóttir, saksóknari hjá Héraðssaksóknara.
Fréttablaðið/Anton Brink

Voru að ræða Ragnar Önundarson og Áslaugu Örnu

Bekkjarsystir brotaþola í lögfræðinni minnist þess að þær hafi rætt þetta í nóvember 2017.

„Við förum að tala um þetta í kjölfar þess að Ragnar Önundason var að gagnrýna Áslaugu Örnu fyrir klæðaval sitt. Þá förum við að ræða kynferðisbrotamál.

„Við vorum að læra saman í Lögbergi og hún segir mér frá þvi að hún hefði orðið fyrir ofbeldi af hálfu nuddara. Þetta fékk mjög mikið á hana.”

Hún minnist þess svo, eftir að ásakanir á hendur Jóhannesi voru til umfjöllunar í fjölmiðlum, að hafa spurt hana hvort þetta væri sá sem hefði beitt hana ofbeldi og hún hafi játað því.“

Ákvað að kæra eftir að hún las um málið í fjölmiðlum

Ragnhildur segist hafa velt fyrir sér lengi hvort aðrir hefðu lent í svipuðu atviki og hafi rætt oft við móður sína um að gera eitthvað í málinu.

Mamma hennar hafi sýnt henni forsíðufrétt Fréttablaðsins árið 2018 þar sem fjöldi kvenna lýsti broti af hendi nuddara. „Ég hringdi í Sigrúnu sem var réttargæslumaður þolenda á þessum og ég spyr hana: „Er þetta Jóhannes?“ og hún segir já.“

Ákvað hún þá að leita réttar síns. „Ég ákveð síðan þá, nú er komið gott. Ég geri það sem mig hefur alltaf langað að gera og kæri, sem ég gerði.“

Ágreiningur um málsatvik

Ágreiningurinn í málinu lýtur meðal annars að því hvort um nauðgun sé að ræða í skilningi almennra hegningarlaga en spurningar saksóknara og verjanda til vitna snúist meðal annars um hvort ákærði hafi stungið fingri inn í leggöng.

Þá hefur verjandi lagt áherslu á að fá upplýsingar um á hvaða tímapunkti brotaþoli lýsi atvikum máls og hvort það hafi verið áður eða eftir að mál annarra brotaþola mannsins hafi fengið umfjöllun í fjölmiðlum og dómur féll í fyrra málinu. Jóhannes hefur þegar verið dæmdur í sex ára fangelsi fyrir að nauðga fjórum öðrum konum sem voru í meðferð hjá honum.

Gerir kröfu um tvær og hálfa milljón í bætur

Saksóknari gerir kröfu um að Jóhannes verði dæmdur til refsingar en hann neitar sök í málinu. Réttargæslumaður Ragnhildar gerir kröfu um tvær og hálfa milljón í miskabætur.