Hluti sóttvarnarlaga á Íslandi, sem varða smit á landamærum og byggja á alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni, eru ekki fullgildar sem lagaheimildir vegna þess að þær hafa ekki verið birtar í Stjórnartíðindum. Ástæðan er sú að það kostar svo mikið að birta reglugerðir jafnvel þó það sé rafrænt.

„Það vantar almennar reglur um komur og brottfarir ferðamanna til dæmis og hvaða almennar heimildir sóttvarnarlæknir hefur ávallt til að grípa til ef það kemur upp einhver grunur. Við höfum leyst þetta með því að setja sérstakar reglur sem duga í stuttan tíma. En almenna reglugerðin, sem átti að setja samkvæmt 13. grein laganna, hefur aldrei verið sett,“ sagði Páll Hreinsson, forseti EFTA-dómstólsins, á opnum fundi stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar í morgun.

„Grundvallarréttindi almennings eru óljós vegna þess að við erum búin að búa til eitthvert gjaldtökumódel milli ráðuneyta. Þetta þarf að laga,“ sagði Andrés Ingi á þingfundi í dag. Mynd úr safni.
Fréttablaðið/Ernir

„Þvílík della“

Alþjóðlegar reglur um úrræði sóttvarnarlæknis gagnvart ferðamönnum þegar upp koma smit á landamærum hafa ekki hlotið fullt gildi hér á landi vegna skorts á fjármagni.

Andrés Ingi Jónsson, óháður þingmaður, vakti athygli á þessu á Alþingi í dag eftir spjall við Pál.

„Álitsgerð Páls Hreinssonar sýnir að grundvöllur sóttvarnalaga, sem hefur einhver réttaráhrif í dag, er ekki jafn traustur og hann ætti að vera. “ sagði Andrés Ingi á þingfundi.

„Ástæðan er einhver innri gjaldtaka innan Stjórnarráðsins, eitt ráðuneyti að borga öðru fyrir að birta í Stjórnartíðindum. Þetta er náttúrlega þvílík della, virðulegur forseti, að orð ná varla yfir það. Grundvallarréttindi almennings eru óljós vegna þess að við erum búin að búa til eitthvert gjaldtökumódel milli ráðuneyta. Þetta þarf að laga.“

Kostar svo mikið að birta rafrænt

Um 300 alþjóðasamningar, þar á meðal sem varða sóttvarnarráðstafanir við komu og brottför farþega frá Íslandi á tímum COVID-19, bíða lögbundinnar birtingar. Án birtingar í C-deild Stjórnartíðinda er ekki hægt að vísa í þessar alþjóðareglur.

Allir þessir 300 samningar hafa verið þýddir á íslensku og er í raun ekkert sem kemur í veg fyrir að þeir öðlist gildi nema að þeir hafa ekki verið birtir í Stjórnartíðindum og Lögbirtingarblaðinu. Ástæðan er sú að það kostar svo mikið að birta þessar reglugerðir, jafnvel þó það sé rafrænt.

„Ég meina kommon“

Páll ræddi við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun um álitsgerð hans um valdheimildir sóttvarnarlæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnarráðstafana en í henni kemur fram:

„Þannig hefur hið almenna „gangverk“ alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar um sóttvarnir ekki verið innleitt í íslenskan rétt sem hefur m.a. að geyma almenn úrræði sóttvarnalæknis gagnvart ferðamönnum þegar upp koma smitnæm tilvik á landamærum.“

Þegar Andrés Ingi spurði nánar út í þessa stíflu í kerfinu svaraði Páll:

„Það virðist vera svona rosalega dýrt að birt rafrænt alþjóðlega samninga að menn hafi bara ekki fjárveitinar í þetta. Ætli menn verði þá ekki bara að skoða reksturinn hjá Stjórnartíðindum og Lögbirtingarblaði hvort eitthvað sé hægt að gera á skynsamlegri hátt? Það getur ekki verið að þetta megi vera svo dýrt, og við erum að tala um rafræna birtingu, ég meina kommon, það hlýtur að vera hægt að kippa þessu í lið.“

Af opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun.