Guðmundur Gunnarsson, einn þeirra sem sendi kosningakæru vegna saknæmra brota yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis, segir að brot yfirkjörstjórnarinnar séu gróf og alvarleg. Þau séu staðfesting á að uppræta þurfi rotþró í íslensku samfélagi.

Lögreglustjórinn á Vesturlandi hefur sent allri yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis sektargerð þar sem yfirkjörstjórnin er sektuð fyrir að hafa látið atkvæði liggja óinnsigluð eftir að talningu lauk. Karl Gauti Hjaltason, oddviti Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi, kærði talninguna til lögreglu.

„Brotin eru staðfesting á því að þótt menn hafi reynt að tala sig niður á þægilegustu niðurstöðuna fremur en réttu niðurstöðuna þá er þetta mál sem ekki er hægt að skauta framhjá af léttúð,“ segir Guðmundur.

Menn séu að tala sig niður á þægindi

Hann segir um skýrt brot að ræða hjá þar til bærum yfirvöldum á gríðarlega mikilvægum lögum sem ætlað sé að undirbyggjua traust í stað þess að tæta það í sundur. „Það er ástæða fyrir sektunum, þetta eru gróf og alvarleg brot.“

Spurður hvort Guðmundur telji að brotin muni hafa áhrif á störf undirbúningskjörnefndar Alþingis, segir Guðmundur að hann hafi hlustað á formann nefndarinnar, Birgi Ármannsson og þá sem hafi farið fyrir nefndina. Hann hafi óttast að menn séu hægt og rólega að missa af því um hvað málið raunverulega snúist og að menn séu að tala sig niður á einhver þægindi.

„En það er ekki þannig sem réttlætið virkar. Ein af ástæðum þess að ég fer út í pólitík er að það er ákveðin rotþró í íslensku samfélagi sem birtist okkur í þessum gjörningi í Borgarnesi. Þessar uppákomur tvíefla mig í að ég eigi erindi,“ segir Guðmundur sem datt út af þingi eftir síðari talninguna í Borgarnesi.