Forsætisnefnd Alþingis hefur fallist á niðurstöður siðanefndar Alþingis þess efnis að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata hafi brotið siðareglur fyrir alþingismenn með ummælum sínum um Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins. Álit forsætisnefndar þessa efnis verður birt á vef Alþingis í dag en það var afgreitt í forsætisnefnd á föstudaginn, degi eftir að þingstörfum lauk.

Umrædd ummæli Þórhildar Sunnu þess efnis að rökstuddur grunur væri um að Ásmundur hefði dregið sér fé í tengslum við endurgreiðslur, sem hann þáði frá þinginu á grundvelli akstursdagbókar hans, féllu í þættinum Silfrinu á RÚV í febrúar í fyrra. Ásmundur kvartaði í kjölfarið til forsætisnefndar þingsins sem vísaði málinu til siðanefndar.

Ekki markmið að takmarka tjáningarfrelsi

Í áliti forsætisnefndar segir að það sé ekki tilgangur siðareglnanna að takmarka tjáningarfrelsi þingmanna. Af siðareglunum leiði að það geti haft þýðingu hvernig tjáningu er komið á framfæri og við hvaða aðstæður. Skorður sem siðareglurnar setji lúti þannig ekki að efni tjáningar heldur að ytri búningi hennar, til að mynda um háttvísi og aðferð.

Forsætisnefnd hafnar þeim athugasemdum Þórhildar Sunnu að rétt hefði verið að siðanefndin legði mat á sannleiksgildi ummælanna og því bæri að vísa málinu aftur til siðanefndar til nýrrar meðferðar. Að mati forsætisnefndar gera siðareglurnar ekki ráð fyrir því að forsætisnefnd fari með úrskurðarvald um sannleiksgildi ummæla sem koma til skoðunar vegna siðareglna.

Það sé á hinn bóginn hlutverk forseta og forsætisnefndar að fjalla um hvort endurgreiðslur til þingmanna fyrir akstur þeirra séu í samræmi við lög og reglur. Þegar ummæli Þórhildar Sunnu féllu hafi athugun á þróun og framkvæmd laga og reglna um þingfararkostnað verið hafin á skrifstofu þingsins. Þá hafi sérstakri athugun á akstursbók Ásmundar Friðrikssonar lokið í nóvember 2018. Svo segir í áliti forsætisnefndar:

„Leggja ber áherslu á í þessu samhengi að í siðanefndarmáli þessu eru til skoðunar ummæli ÞSÆ á grundvelli siðareglna fyrir alþingismenn en ekki hvort ÁF hafi farið á svig við reglur um endurgreiðslu aksturskostnaðar eða hvort „rökstuddur grunur“ sé um slíkt.“ Með vísan til þessa féllst forsætisnefnd á álit siðanefndarinnar.

Þrír með sérbókun

Tveir nefndarmanna lýstu sig andvíga niðurstöðunni í bókun. Auk Jóns Þórs Ólafssonar þingmanns Pírata, lýsti Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins andstöðu við niðurstöðu siðanefndarinnar þar eð hann telur bæði Þórhildi Sunnu og Björn Leví Gunnarsson hafa brotið gegn siðareglunum með ummælum sínum um Ásmund Friðriksson.

Fulltrúi Samfylkingarinnar, Guðjón Brjánsson, gagnrýnir fyrirkomulag við framkvæmd siðareglna í sérbókun en greiddi atkvæði með niðurstöðunni.

Segir frumkvæðið koma frá Steingrími

„Þar sem meirihluti forsætisnefndar hefur fellt tillögu mína að málinu væri vísað aftur til siðanefndar og óskað eftir því að hún rannsaki sannleiksgildi ummæla Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, eins og hún og Björn Leví Gunnarson óskuðu eftir, þá kýs ég á móti tillögu forseta Alþingis, Steingríms J. Sigfússonar, að afgreiða málið með þeim hætti að gera álit siðanefndar að áliti forsætisnefndar," segir Jón Þór Ólafsson, fulltrúi Pírata í forsætisnefnd í sinni bókun.

Jón Þór Ólafsson er sjötti varaforseti Alþingis og þingmaður Pírata.

Jón Þór segir tilgang siðareglnanna að koma í veg fyrir að þingmenn misnoti aðstöðu sína til að hygla sjálfum sér á kostnað almannahags. Skilaboð meiri hluta forsætisnefndar til þingmanna séu skýr. Það teljist ekki brot á siðareglum að óska eftir og fá meira greitt af almanna fé en gildandi reglur heimili. Það teljist hins vegar brot að segja að slík háttsemi skapi rökstuddan grun um brot sem þurfi að rannsaka.

‘Sönn ummæli Þórhildar Sunnu um mögulega spillingu eru túlkuð sem siðabrot á Alþingi.’ Þannig túlkar Jón Þór niðurstöðu meiri hluta nefndarinnar. og segir siðareglunum snúið á haus.

„Þessi afgreiðsla er til þess fallin að fela mögulega spillingu og þagga niðri í þeim sem vilja uppræta hana. Þessi afgreiðsla gengur gegn tilgangi siðareglnanna,“ segir Jón Þór í lok sinnar bókunnar.

Telur Björn Leví einnig brotlegan

Í bókun sinni ítrekar Þorsteinn Sæmundsson fulltrúi Miðflokksins í forsætisnefnd það álit sitt að bæði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Björn Leví Gunnarsson hafi gerst brotleg við siðareglur í máli því sem Ásmundur Friðriksson beindi til Forsætisnefndar. Hann er því ósammála áliti siðanefndar að því leyti.

Þorsteinn Sæmundsson er þingmaður Miðflokksins.

Í bókunni lýsir Þorsteinn vonbrigðum með fyrirkomulag um meðferð meintra brota á siðareglum sem hann telur hafa reynst afleitlega og mál sem þegar séu í ferli afgreidd eða meðhöndluð með ámælisverðum hætti.

,,Ómögulegt er einnig að setja þingmenn í þá stöðu að þurfa að kveða upp úr um ,,sekt“ eða ,,sakleysi“ kollega sinna. Í því er einnig falinn nokkur freistnivandi eins og þegar hefur komið fram. Brýnt er því að taka núverandi fyrirkomulag til endurskoðunar auk þess sem bæta þarf fyrirliggjandi reglur,“ segir í bókun Þorsteins.

Fulltrúi Samfylkingarinnar styður niðurstöðuna

Guðjón Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar segir í sinni bókun að mikilvægt sé að hafa siðanefnd sem hafi fullt og milliliðalaust umboð til að kveða upp úrskurði í álitamálum sem upp komi vegna þingmanna.

Hann gagnrýnir hins vegar aðkomu forsætisnefndar að málum, hún hafi reynst illa enda hafi verið varað við aðkomu hennar í umsögnum um siðareglurnar í aðdraganda setningu þeirra á Alþingi. „Það er ótækt að pólitískir fulltrúar hafi lokaorð um niðurstöðu máls er varðar hugsanleg brot samþingmanna þeirra á siðareglum Alþingis,“ segir Guðjón í bókun sinni.

Forseti og varaforsetar skipa forsætisnefnd.

Guðjón vísar til þess að aðeins einn þingmaður hafi til þessa verið talinn brotlegur við siðareglurnar, fyrir fyrir þáttöku í opinberri umræðu um meint brot annars þingmanns og brotið varði orðalag fremur en inntak. „Þetta tel ég óheppilegt fyrir þingið, ásýnd þess og störf,“ segir Guðjón en styður engu að síður niðurstöðu forsætisnefndar með vísan til viðhorfa sinna til málsmeðferðar og þátttöku forsætisnefndar. Hann slær botn í bókun sína með orðunum: „Í ljósi þess sem að framan greinir hlýt ég þó að lúta niðurstöðu siðanefndar.“

Upptekin vegna mannréttindamála í Evrópu

Þórhildur Sunna baðst undan viðtali vegna málsins þegar eftir því var leitað. Hún er í Strassborg þar sem sumarfundur Evrópuráðsþingsins fer fram.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir gegnir formennsku í mannréttindanefnd Evrópuráðsþingsins.

Á dagskrá Evrópuráðsþingsins eru meðal annars skýrslur mannréttindanefndar þingsins, þar sem Þórhildur Sunna fer með formennsku, um annars vegar morðið á fréttakonunni Daphne Caruana Galizia frá Möltu árið 2015 og hins vegar morðið á Boris Nemtzov, rússneskum stjórnmálamanni sem myrtur var sama ár.