„Það er svo merkilegt að við tengjum vanlíðan frekar við veturinn og finnst að okkur eigi að líða vel á sumrin en í rauninni er algengara en við höldum að þunglyndi láti á sér kræla á vorin og fram eftir sumri.“

Þá séu tíu prósent þeirra sem eru með árstíðabundið þunglyndi með þunglyndi yfir sumartímann. Sóley segir ekki fyllilega vitað hvað útskýri það en þó sé vitað að sólarljós trufli melatónínmyndun sem geti dregið úr magni serótóníns, en lágt serótónínmagn hefur verið tengt við þunglyndi.

„Svo eru það þessir samfélagslegu þættir. Við höfum rosalegar væntingar til sumarsins og það á að vera geðveikt. Ef það stendur ekki undir væntingum, rignir til dæmis allt sumarið, eru vonbrigðin þeim mun meiri,“ segir Sóley.

Vænta má þess að þó nokkrir finni fyrir slíkum einkennum nú en gríðarlegur veðurmunur hefur verið á landinu þetta sumar. Gjarnan skýjað og súld í Reykjavík meðan sólin hefur leikið við landsmenn fyrir norðan og austan líkt og sjá má á samfélagsmiðlum eins og Instagram.

„Við höfum rosalegar væntingar til sumarsins og það á að vera geðveikt. Ef það stendur ekki undir væntingum, rignir til dæmis allt sumarið, eru vonbrigðin þeim mun meiri.“

Sóley Dröfn Davíðsdóttir, sálfræðingur hjá Kvíðameðferðarstöðinni.

„Svo eru það samfélagsmiðlarnir sem gera okkur óleik. Því það lítur út á fésbókinni eins og allir séu að gera svo ógeðslega skemmtilega hluti alltaf og að allir aðrir séu svo ofboðslega hamingjusamir,“ heldur Sóley áfram.

„Vandinn er að við sjáum inn í okkur en ekki hvað bærist innra með öðrum og hvernig þeim raunverulega líður. Við erum þannig að bera okkar innra saman við ytra yfirborð annarra og fólk ber það alls ekkert alltaf með sér hvernig því líður.“

Streituvaldar sem tengist sumrinu

Sóley segir líka ýmsa streituvalda tengjast sumrinu. Aukin útgjöld vegna sumarfría, álag sem fylgir því að hafa börnin heima og skortur á rútínu valdi streitu. „Svefninn fer frekar úr skorðum, við drekkum meira á sumrin og eins og við vitum býr það til aukinn kvíða og depurð, alla vega daginn eftir.“

Margt er hægt að gera til að berjast við sumardepurðina að sögn Sóleyjar.

„Að stilla væntingum í hóf, þetta þarf ekkert að vera geðveikt og maður getur ekki verið glaður alltaf. Eins að minna okkur á að þó fólk líti út fyrir að vera alltaf að vera að gera geggjaða hluti, er veruleikinn ekki alltaf þannig. Það er ekki allt sem sýnist og mönnum líður misjafnlega á sumrin enda er lífið oft á tíðum erfitt,“ segir hún.