Von er á að sala á honum hefjist undir lok ársins eftir aldarfjórðungs fjarveru. Ekki verða þó mörg eintök í boði þar sem bíllinn er mjög vinsæll heima fyrir. Ekki hefur verið gefið upp hvaða útgáfur Bronco verða í boði né hvað hann muni kosta, eða hvort hin öfluga Raptor-útgáfa verði í boði. Í Bandaríkjunum eru tvær útgáfur í boði með bensínvélum búnum forþjöppum. Sú minni er 2,3 lítra og skilar 270 hestöflum og 420 Nm togi. Stærri vélin er 2,7 lítra sex strokka vél með 310 hestöfl að spila úr og togið 542 Nm. Ford Bronco Raptor er með þriggja lítra V6-vél og skilar 395 hestöflum. Ford hefur gefið til kynna að rafdrifin útgáfa gæti verið á leiðinni og ekki er loku fyrir það skotið að sá bíll kæmi á Evrópumarkað, þar sem rafbílar eru hvað vinsælastir. Spennandi yrði þó að fá alvöru jeppa með alvöru vélum fyrir íslenska jeppaáhugamenn.