Innlent

Bróðir Hauks hand­­­tekinn af sér­sveit á þaki stjórnar­ráðsins

Darri Hilmarsson, bróðir Hauks Hilmarssonar, fetaði í fótspor bróður síns í dag þegar hann flaggaði fána Tyrklands á þaki stjórnarráðsins. Hann var handtekinn af sérsveitarmönnum á vettvangi og fluttur á lögreglustöð, þar sem hann fékk ekkert símtal, þrátt fyrir að fara ítrekað fram á það.

Gjörningurinn kallast á við fánaaðgerð á vegum anarkista fyrir réttum 10 árum, en þá flaggaði Haukur Hilmarsson byltingarfána Jörundar Hundadagakonungs á þaki stjórnarráðsins. Aðsend mynd

Maðurinn sem handtekinn var í dag þegar hann flaggaði fána Tyrklands á þaki stjórnarráðsins í nafni aðgerðahópsins „Hvar er Haukur?“ er bróðir Hauks Hilmarssonar, Darri Hilmarssson. Þannig fetaði Darri í fótspor bróður síns en fyrir tíu árum framkvæmdi Haukur svipaðan gjörning á sama þaki. 

Darri var handtekinn af tveimur sérsveitarmönnum og var síðan ekið á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem hann var læstur í klefa án þess að fá símtal, sem hann á rétt á samkvæmt 28. grein laga um meðferð sakamála.

„Tveir sérsveitarmenn komu upp á þak og handtóku mig þar. Ég var síðan fluttur í venjulegum lögreglubíl upp á Hverfisgötu þar sem leitað var á mér og ég síðan færður inn í klefa,“ segir Darri í samtali við Fréttablaðið í kvöld.

Hann telur að hann hafi verið í um þrjá til fjórar klukkustundir inni í klefa.

„Ég fékk aldrei símtalið mitt þrátt fyrir að ég hafi ítrekað farið fram á það. Ég held ég hafi beðið fjórum eða fimm sinnum um símtalið,“ segir Darri og bætir við að alltaf hafi honum verið sagt að það yrði skoðað á eftir. 

Að sama skapi var honum sagt að það væri búið að hafa samband við fólk fyrir hans hönd. Hann segir það þó ekki hafa verið gert, eða að minnsta kosti ekki það fólk sem hann hafði beðið lögregluna um að hafa samband við.

Yfirheyrslan sjálf tók síðan aðeins um þrjár mínútur og var honum sleppt að henni lokinni. „Mér var í rauninni bara hent út á götu og ég trítlaði leiðar minnar, segir Darri.

Hann segir að ekkert hafi verið sagt með beinum hætti um eftirmála gjörningsins. „En það gæti orðið eitthvað,“ segir Darri.

Sjá einnig: Flögguðu tyrkneska fánanum við stjórnarráðið

Hér að neðan er hægt að sjá myndskeið frá hópnum þar sem Darri dregur fánann að húni og síðar þegar sérsveitarmennirnir eru komnir upp á þak, handtaka Darra og draga íslenska fánann að húni á ný. 

„Maður heldur alltaf í vonina“

Aðspurður hvernig honum hafi liðið að feta í fótspor bróður síns með þessum hætti segir Darri: „Mér leið ljómandi vel.“

Gjörningurinn var framkvæmdur af aðgerðahópnum „Hvar er Haukur“ og var ætlaði að vekja athygli á því að nú er liðið á fjórða mánuð frá því að fréttir bárust fyrst af því að Hauks væri saknað eftir loftárásir Tyrkja í Afrín héraði. Lík Hauks hefur enn ekki fundist og því hefur fjölskylda hans ekki enn fengið neina sönnun þess að hann sé látinn.

Aðspurður hvort þau telji enn líklegt að lík Hauks finnist, segir Darri: „Maður heldur alltaf í vonina.“

Hverju vonuðust þið til til að ná í gegn með gjörningnum?

„Við vonuðumst til þess að sparka aðeins í rassgatið á stjórnvöldum,“ segir Darri. 

Hvað heldurðu að þau gætu gert meira?

„Þau gætu til dæmis spurt beint hvort Tyrkir séu með Hauk lífs eða liðinn og eins hvað Tyrkir hafi gert með lík á svæðinu,“ segir Darri að lokum.

Um mánuður er síðan foreldrar Hauks ásamt foreldrum bresku stúlkunnar Önnu Campbell, sem einnig er talin hafa fallið í átökunum í Afrín héraði, skrifuðu ríkisstjórnum Íslands og Bretlands opið bréf þar sem þau kröfðust þess að tyrknesk yfirvöld séu krafin svara um það hvar lík þeirra sem féllu í átökunum eru, hvenær hreinsun eigi að fara fram og hvers vegna Rauða krossinum hafi ekki verið hleypt inn á svæðið, ráði Tyrkir ekki sjálfir við verkefnið.

Sjá einnig: „Ég hélt að hann hefði verið settur í fjölda­gröf“

Tilkynningu hópsins sem send var út fyrr í dag er hægt að lesa hér að neðan í heild sinni.

Fréttatilkynning frá aðgerðahópnum „Hvar er Haukur?"

Nú er liðið á fjórða mánuð frá því að fréttist að Hauks Hilmarssonar væri saknað eftir loftárás Tyrkja á sjálfstjórnarsvæði Kúrda í Sýrlandi. Haukur barðist við hlið Kúrda gegn Islamska ríkinu í Raqqa og síðar gegn innrás Tyrkja í Afrín. Lík Hauks hefur ekki fundist og í raun engin sönnun þess að hann sé látinn.

Óskum fjölskyldu Hauks um að Tyrkir verði krafðir svara um það hvað varð um lík þeirra sem féllu í Afrín hefur Utanríkisráðuneytið svarað á þann veg að það fylgi ráðleggingum tyrknesku lögreglunnar og vilji því ekki bera þessa spurningu undir stjórnvöld í Tyrklandi. Ennfremur telur ráðuneytið, þrátt fyrir að alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn í París telji tyrknesk stjórnvöld sek um stríðsglæpi gegn Kúrdum, að þar sem Tyrkir segist sjálfir fara að alþjóðalögum á átakasvæðum sé ekki ástæða til að óttast að líkin liggi enn á víðavangi. Ráðuneytið hefur því ekki fengist til að spyrja tyrknesk stjórnvöld hvers vegna Rauða krossinum sé ekki leyft að leita að líkum á svæðinu. Forsætisráðuneytið hefur neitað að taka við málinu enda telur forsætisráðherra að Utanríkisráðuneytið vinni að því „af heilindum".

Rannsókn lögreglunnar á afdrifum Hauks hófst með því að lögreglan bjó til málsnúmer, sagðist „leita" Hauks eins og sjómanns sem hefði fallið fyrir borð og beið þess síðan að líkið ræki að landi. Að sögn foreldra Hauks er nú tekinn við málinu lögreglumaður sem er hvorki heimalningur né hálfviti og hefur tekið skref í átt til alvöru rannsóknar. Þetta eru góðar fréttir og vonandi skilar sú rannsókn einhverjum svörum.

Viðleitni lögreglunnar breytir þó engu um framgöngu Utanríkisráðuneytisins og Forsætisráðuneytisins í þessu máli og þar sem sú undarlega staða er uppi að tyrkneska lögreglan stjórnar því hvernig íslensk ráðuneyti haga leit sinni að íslenskum ríkisborgara, er vel við hæfi á þjóðhátíðardegi Íslendinga að gera þessi óvæntu valdaskipti sýnileg. Af því tilefni stóð aðgerðahópurinn „Hvar er Haukur" fyrir fánaskiptum á þaki Stjórnarráðsins í dag.

Gjörningurinn kallast á við fánaaðgerð á vegum anarkista fyrir réttum 10 árum, en þá flaggaði Haukur Hilmarsson byltingarfána Jörundar Hundadagakonungs á þaki Stjórnarráðsins.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Flögguðu tyrkneska fánanum við stjórnarráðið

Erlent

„Ég hélt að hann hefði verið settur í fjölda­gröf“

Innlent

Katrín segir mál Hauks í al­gjörum for­gangi

Auglýsing

Nýjast

Á­rásar­maðurinn myrti fimm manns á vinnu­stað í Illin­ois í gær

Fór illa út úr hruninu en vann 45 milljónir í vikunni

Reyndi að borða flug­miðann sinn

Fínt vetrar­veður fram eftir degi en hvessir í kvöld

Leiðar­vísir að Kata­lóna­réttar­höldunum

Réðist á gesti og starfs­fólk

Auglýsing