Sveinn Hjörtur Guðfinnsson tjáir sig um andlát bróður síns, starf sitt sem varðstjóri hjá Neyðarlínunni og sem dyravörður í nýjasta þætti Podcasts Sölva Tryggvasonar. Bróðir hans var myrtur um borð í varðskipinu Tý í janúar árið 1980. Þá var hann tíu ára gamall, en atburðurinn hafði veruleg áhrif á alla fjölskylduna.

„Ég hét því þarna að ég ætlaði að verða prestur af því að ég taldi að það myndi hjálpa mér að skilja dauðann betur og líka gæti ég þá aðstoðað fólk sem myndi missa nákomna. Skrápurinn þykknar svo auðvitað með árunum, en þetta er eitthvað sem hefur setið með mér og allri fjölskyldunni alveg síðan,“ segir Sveinn.

Hann segir að missirinn sem slíkur hafi ekki bara verið erfiður, heldur líka hvernig andlátið bar að.

„Hann var myrtur um borð í skipi. Ég man eftir því að öll umræða um málið var eitthvað sem fjölskyldan og sérstaklega mamma var ekki hrifin af. Það var auðvitað engin áfallahjálp á þessum tíma og fólk átti bara að halda áfram. Pabbi vann í lögreglunni og hann byrjaði bara strax að vinna. Auðvitað byrja örin smám saman að gróa, en það verður aldrei neitt eins eftir svona atburð.“ útskýrir hann.

Sveinn tjáir sig um áfallið, sem og önnur áföll sem hann hefur orðið fyrir. Þar minnist hann til að mynda á kynferðisbrot sem hann varð fyrir sem unglingur.

„Fyrir utan stóra áfallið þegar bróðir minn fór, kem ég líka úr heimilislífi alkóhólisma og varð fyrir kynferðisbroti sem unglingur og það er með ólíkindum hvað líkaminn og sálin ná að loka þessa hluti inni. Það var ekki fyrr en fyrir nokkrum árum síðan að ég hætti að blokkera á kynferðisbrot sem ég varð fyrir þegar ég var tólf ára. Þegar ég áttaði mig á því hve mikil áhrif það hafði haft á mig leitaði ég til Stígamóta og ég er enn í strákahópnum þar sem er alveg meiriháttar. Þau hafa hjálpað mér alveg gríðarlega vel.“