Lúð­vík Ás­kels­son spyr Agnesi Sigurðar­dóttur, biskup Ís­lands, hvernig það megi vera að allt sem bróðir hans Hörður Ás­kels­son, sem kantors við Hall­gríms­kirkju hafi gert fyrir kirkjuna sé einn daginn gleymt og grafið og ekki þakkar­vert.

Lúð­vík birti opið bréf til biskups vegna málsins í Frétta­blaðinu í dag. Þar rekur Lúð­vík mál bróður síns sem vakti mikla at­hygli í maí síðast­liðnum þegar honum var sagt upp störfum í kirkjunni, eftir 39 ára starf. Blaðið hefur sent biskups­stofu fyrir­spurn vegna bréfsins og leitað við­bragða.

Hörður sagði upp­sögnina spark í rassinn í sam­tali við Frétta­blaðið á sínum tíma. Tveir kórar fylgdu Herði út úr kirkjunni í kjöl­farið en Einar Karl Haralds­son, for­maður sóknar­nefndar kirkjunnar sagði í sam­tali við blaðið að starfið yrði byggt upp að nýju.

Hvergi komið fram hvað Hörður gerði af sér

Ljóst er að málið liggur enn þungt á fjöl­skyldu Harðar, ef marka má bréf Lúð­víks. Þar rekur hann árangur og metnað bróður síns undan­farin ár. „En nú á ég bróður í sárum!“ skrifar Lúð­vík.

„Í mínum huga og er á­­stæða þessara hug­­leiðinga til þín og kirkjunnar í heild, hvar er kær­­leikurinn, um­­burðar­­lyndi, fyrir­­­gefning og þá ekki síst þakk­læti! Það skrítna við þetta allt saman er, að það hefur hvergi komið fram hvað Hörður Ás­kels­­son gerði af sér til að hljóta þessa með­­ferð frá kirkjunnar mönnum!“

Lúð­vík segist helst hallast að öfund, öfund sóknar­nefndar út í List­vina­fé­lagið.

„Í þessu máli er erfitt að sjá að fylgt hafi verið grunn­­gildum kristinnar trúar. Á­­gæta frú biskup, þetta bréf er til þín og biskups­­stofu, en það eru fleiri sem ættu að fá svona bréf, t.d. prestar Hall­gríms­­kirkju og sam­­starfs­­fé­lagar bróður míns í kirkjunni, það hefur ekki heyrst neitt frá þessu fólki, alla­vega ekki mjög hátt! Það kann kannski ekki að segja takk!“

Grein Lúðvíks í Fréttablaðinu í dag.