Aukin aðsókn hefur verið á námskeið Improv-skólans undanfarnar vikur, enda styttist í að það sem áður taldist eðlilegt líf hefjist á ný og sóttkví og einangrun heyri sögunni til.

„Það hefur verið ótrúlega gaman að fylgjast með þessu, að sjá fólk brjótast aftur út úr skelinni sinni,“ segir Dóra Jóhannsdóttir, stofnandi og kennari við skólann, spurð út í aðsóknina.

Í Improv-skólanum er lögð áhersla á ýmis mannleg samskipti og er óhætt að áætla að margir Íslendingar séu heldur óöruggari um hvað ræða skuli við kaffivélina í vinnunni eftir mikla fjarvinnu undanfarið ár.

„Fólk er svolítið að skríða aftur í dagsljósið úr einangrun, sóttkví og öllu þessu sem hefur verið í gangi undanfarið ár,“ segir Dóra létt í bragði og heldur áfram:

„Fyrir vikið er komin mikil þörf í samfélaginu fyrir að vera í kringum fólk. Það hafa margir viðurkennt að hafa einfaldlega gleymt því hvernig á að hafa gaman. Það sé orðið allt of langt frá síðasta hláturskasti og jafnvel búið að gleyma hvernig á að taka frumkvæði í mannlegum samskiptum. Það eru allt aðrar áherslur í mannlegum samskiptum í dag heldur en það sem áður þekktist og margir finna fyrir því að þurfa að skerpa á hlutunum í þessu.“

Rannsóknir hafa sýnt að andlegri heilsu hafi hrakað í heimsfaraldrinum enda hafa margir einangrast frá samfélaginu. Dóra kannast við þá sálma.

Mín reynsla er sú að allir einstaklingar eru skemmtilegir inn við beinið.

„Það eru margir sem hafa orð á því að andleg líðan sé mun þyngri eftir þennan faraldur. Margir tala um að lífsgleðin sé ekki sú sama og þar vegur skorturinn á félagslegum samskiptum talsvert að mínu mati. Fólk er búið að halda inni í sér í langan tíma en það sér ljós fyrir enda ganganna,“ segir Dóra og segir kennsluefnið einfalt.

„Námskeiðið snýst fyrst og fremst um að hafa gaman, halda ekki aftur af sér og hlæja. Það er mikið um hlátur á námskeiðinu. Fyrir vikið finnum við fyrir miklu þakklæti hjá þeim sem hafa setið námskeiðið.“

Dóra segir að það sé í eðli okkar að vera skemmtileg en stundum þurfi aðstoð til að draga það fram. „Mín reynsla er sú að allir einstaklingar eru skemmtilegir inn við beinið. Það eru allir með það í sér að vera skemmtilegir. Ef einstaklingar hlusta og leyfa innsæinu að ráða þá eru allir skemmtilegir í sínu eðli.“