Brjóstmynd af skáldinu Þorsteini Valdimarssyni er horfin úr Hallormsstaðaskógi. Hvarfið hefur verið tilkynnt lögreglu sem þjófnaður og skemmdarverk.

Þetta kemur fram á vef Skógræktarinnar, en þar kemur fram að skógarverðinum á Hallormsstað hafi borist tilkynning í vikunni um málið.

Það var myndlistarmaðurinn Magnús Á. Árnason sem gerði brjóstmyndina.

„Brjóstmyndin hefur staðið í Trjásafninu í Mörkinni á Hallormsstað í áratugi til minningar um Þorstein sem bæði var þekkt ljóð skáld og starfaði öðru hverju hjá Skógræktinni á Hallormsstað sem sumarstarfsmaður. Brjóstmyndin stóð þar sem Þorsteinn bjó gjarnan í tjaldi og kallaði Svefnósa.“

Þetta segir í tilkynningunni, en þar kemur jafnframt fram að

unnendur skáldsins og skógarins voni innilega að myndin skili sér til baka og hægt verði að lagfæra hana og koma fyrir á sínum stað á ný.

Þá segir að allar ábendingar varðandi málið séu vel þegnar.

Hér sést stöðullin án brjóstmyndarinnar.
Fréttablaðið/Aðsend