Bandaríska körfuknattleikskonan Brittney Griner sem er í haldi í Rússlandi hefur biðlað til Joes Biden Bandaríkjaforseta um hjálp við að greiða úr máli hennar.

Griner hefur verið í haldi í Rússlandi síðan í febrúar eftir að kannabisvökvi fyrir rafsígarettur fannst í farangri hennar við komuna til landsins.

Dómsmál gegn Griner stendur nú yfir í borginni Khímkí, rúmum fjórum mánuðum eftir að hún var handtekin af landamæravörðum, og gæti hún átt yfir höfði sér tíu ára fangelsisvist ef hún verður fundin sek um eiturlyfjasmygl.

Bréf Griner hefur ekki verið birt opinberlega í heild sinni en hlutar af því hafa verið birtir í fjölmiðlum og bandarísk yfirvöld staðfestu að þau hefðu tekið á móti bréfinu.

„Er ég sit hér í rússnesku fangelsi, alein með hugsunum mínum og fjarri eiginkonu minni, fjölskyldu, vinum, Ólympíutreyjunni minni og afrekum mínum, er ég dauðhrædd um að ég gæti þurft að dúsa hér að eilífu,“ skrifaði Griner í bréfi sínu til Bandaríkjaforseta.

Griner, sem er 31 árs, spilar fyrir liðið Phoenix Mercury og hefur lengi verið talin ein efnilegasta körfuknattleikskona Bandaríkjanna.